Fiskeldi í Noregi

dr Þorleifur Ágústsson og dr Anna G. Edvarsdóttir sem bæði fluttu erindi á ráðstefnunni á Akureyri.

Í Noregi eru 1100 leyfi fyrir eldi á laxi í sjó. Á hverjum tíma eru 500 til 700 þessara svæða með lax í sjó. Þessi mikli fjöldi leyfa dreyfist tiltölulega jafnt eftir vestur strönd Noregs en þó má segja að leyfi séu flest í Nordland, Hordaland og Möre og Romsdal. Fæst eru leyfin við suðurströndina enda hitastig sjávar of hátt fyrir eldi.

mynd: laxeldi í Noregi

Laxeldi í Noregi hefur þróast mjög hratt – búnaður hefur stórbatnað og tækni sem notuð er við eldi er mjög frábrugðin því sem var þegar fyrstu tilraunir voru gerðar með eldi á laxi í sjó. Það sem hefur þó ekki breyst er að ýmsar náttúrulegar hættur eru enn til staðar. Hér er átt við veður og ástand sjávar – hita og strauma, lagnaðarís og afrán.

Stærsta ógn við laxeldi er laxalúsin – lítið krabbadýr sem er náttúrulegt í umhverfinu og því ómögulegt að losna við að fullu. Þessi skaðvaldur legst á laxfiska og getur valdið gríðarlegum skaða og á endanum dauða. Lúsin hefur tiltölulega flókinn lífsferil með 10 mismunandi þroskastig. Það er á þriðja þroskastiginu sem lúsin sest á laxinn og hefst handa við að sjúga blóð með tilheyrandi skemmdum. Norsk yfirvöld ákváðu með tillliti til velferð laxins í huga að fiskeldisaðilar yrðu að fylgjast náið með þróun (fjölda) lúsa á laxi í eldi – og var ákveðið að fjöldi fullþroska kvendýra mætti ekki verða fleiri en 0,5 að meðaltali og allt skyldi gert til að ná þessu markmiði – að fjöldi lúsa væri mjög lágur.

Eldisaðilar þurfa því að telja reglulega, í hverri viku þegar hitastig sjávar er hærra en 10 gráður, en aðra hverja viku þegar hitastig er á bilinu 4-10 gráður. Ávalt skal telja í helming sjókvía á hverju svæði til að fá sem besta mynd af stöðunni. Ef kvíar eru þrjár eða færri skal telja í öllum kvíum. Við talningu er auðvitað mikilvægt að fiskar séu taldir handahófskennt svo að sem best gögn fáis úr talningu.  Ýmsir hafa verið til að gagnrýna þessar ströngu kröfur um fjölda lúsa og sagt að í náttúrunni sé staðan allt önnur – en engu að síður er þetta niðurstaðan og henni er fylgt. Hér skiptir því miklu að eftirlit sé gott og góð samvinna sé á milli eldisaðila og yfirvalda varðandi skil á lúsagögnum svo að vel megi fylgjast með stöðu mála.

Getum við gert ráð fyrir að laxalúsin verði vandamál á Íslandi?

Ef ég á að svara fyrst spurningunni hvort laxalús geti orðið stórt vandamál á Íslandi þá er auðvitað svarið það að slík hætta er fyrir hendi. Þó er það svo að lífsferill lúsarinnar er vel þekktur og hún vex mjög hægt þegar hitastig sjávar er eins lágt og þekkt er á Íslandi. Eldi er ekki stundað við suðurströnd landsins þar sem hiti sjávar er hæstur og því má gera ráð fyrir að við munum ekki sjá sambærilegt ástand eins og getur skapast þar sem eldi er mikið og hiti sjávar hár. Það er hinsvegar alveg ljóst að laxalúsin er lúmsk og ekki skal draga úr þeirri hættu sem getur skapast við lúsafaraldur. Hitastig sjávar við strendur landsins vinnur hinsvegar með eldisaðilum og það er jákvætt.

Í Noregi hefur gríðarlegum fjármunum verið varið í baráttunni við laxalúsina. Bara í ár mun rannsóknarsjóður sem fjármagnaður er með gjöldum á laxeldisiðnaðinn í Noregi eyða um 64 milljónum norskra króna í að fjármagna nýjungar og þróun í baráttunni við laxalúsina. Þessi upphæð er há – og sem segir jú til um vandann. Þetta segir jú ennfremur til um að óskað er eftir nýsköpun, nýrri hugsun en ekki bara leitað til opinberra stofnana svo sem Hafró þeirra norðmanna til að finna lausnir. Þetta er gríðarlega mikilvægur púnktur í ljósi þess að ein stofnun getur ekki haft á eigin vegum alla þá þekkingu sem krafist er til að stunda rannsóknir og eftirlit.

En hvað er að gerast í þróuninni gegn laxalús?

Til langs tíma hafa lyf af ýmsu tagi verið notuð í baráttunni – en tími þeirra er að mestu liðinn og notkun hefur minnkað gríðarlega. Sem betur fer fyrir náttúruna og fiskinn sjálfan. Í staðinn hefur spjótunum verið beint að þróun eldisbúnaðar sem tekur á þessum vanda auk þess sem bæði náttúrulegar og mekanískar aðferðir hafa verið notaðar í baráttunni.

Við íslendingar þekkjum vel Hrognkelsi og höfum um aldir nýtt til manneldis. Í ljós kom að þessi skemmtilegi fiskur er ansi duglegur við að éta lús og því hefur skapast töluverður iðnaður við eldi á þessum fiski sem svo er settur í kvíarnar til að aflúsa laxinn. Síðar hefur reyndar komið í ljós að ekki eru allir fiskarnir duglegir við átið og því er Hrognkelsi ekki lausn vandans einn og sér. Aðrar tegundir hafa verið notaðar og sem eru okkur íslendingum framandi, svo sem Bergsnapi – en saman vinna þeir mikla vinnu og eru notaðir af flestum eldisaðilum.

Eldisbúnaður er stöðugt í þróun og mikið er í lagt við þróun búnaðar sem tekur á lúsavandanum. Bæði er um sökkvanlegar kvíar að ræða – sem hægt er að sökkva niður fyrir efstu 10 metrana þar sem lúsin er til staðar. Sökkvanlegar kvíar hafa þann annmarka að laxinn líkt og flestir fiskar þarf að komast upp á yfirborðið til að sækja sér loft í sundmagann – en hann er nauðsynlegur svo að fiskurinn haldi floteiginleikum sínum – sökkvi ekki bara til botns. Þetta hefur verið leyst með því annarsvegar að flytja loft niður í kvíarnar eða gefa fiskinum aðgang að yfirborðinum með þröngu röri  – en þá lærir fiskurinn að sækja sér loft og lofa slíkar kvíar góðu.

mynd: snorkel

Eins hefur þróun á „lúsapilsi“ reynst vel – en þá er þéttur dúkur utan um kví sem ekki hleypir lús í gegn en þó getur sjór borist í gegn og fiskurinn þrífst vel

kví klædd lúsapilsi

Kannski má segja að tækninni hafi fleytt hvað mest fram við þróun svokallaðra „hálf lokaðra kvía“ – en það eru kvíar sem eru í raun fljótandi fiskabúr. Hálflokaðar eru þær kallaðar sökum þess að dæla þarf inn sjó og sem gert er af um 30 m dýpi – bæði til að fá sjó sem er laus við laxalús og eins til að fá stöðugt hitasti sem er mikilvægt til að stjórna vaxtarhraða fisksins. Í þessum kvíum er því nauðsyn að stjórna súrefnismagni en ekki síst að losa úrgangsefni sem valdið geta eitrun – svo sem koltvísýringi og köfnunarefni. Tilraunaeldi með þessum búnaði hefur reynst vel og fiskurinn er heilbrigður og fallegur. Þetta eru jákvæðar fréttir og undirstrikar það að fiskeldisiðnaðinum er umhugað um að ná árangri og vinna í sátt við umhverfið. Nú þegar hefur fyrirtæki sem þróar eina tegund af þessum búnaði sótt um leyfi til eldis í Eyjafirði.

mynd: aquafuture

Það sem er þó til umhugsunar er að mikið af þeirri þróun sem er á eldisbúnaði hefur það að markmiði að berjast gegn laxalúsinni. Ekki eru allar þessar kvíar þannig úr garði gerðar að hægt sé að hirða upp úrgang – skit og fóðurleyfar. Hér er um mjög áhugaverðan púnkt að ræða í ljósi þess að ef fiskeldi er unnið skv. Ítrustu kröfum þá á það ekki að valda skaða á umhverfinu. Fiskeldi er að mörgu leyti ekki frábrugðinn landbúnaði – bóndinn ber virðingu fyrir umhverfi sínu og veit að ef hann vinnur ekki í sátt við umhverfið þá mun hann ekki geta selt afurðir sínar og á sér ekki framtíð. Fiskeldi í Noregi skiptir þjóðarbúið gríðarlegu máli – að skapar atvinnu í strjálbýlu landi og möguleika fyrir ungt fólk til að taka þátt í að byggja sér framtíð.

Lykillinn að vel heppnuðu eldi er því að vinna í sátt við umhverfið og samfélagið.

 

  1. Þorleifur Ágústsson

 

Erindi flutt á ráðstefnu á Akureyri um fiskeldi í Eyjafirði í síðasta mánuði.

DEILA