farþegum skemmtiferðaskipa bannað að fara í land í friðlandinu á Hornströndum

Mynd: Kristín Ósk Jónasdóttir.

Í fréttatilkynningu frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu segir að stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið á Hornströndum hafi frá og með deginum í dag formlega tekið gildi. Markmiðið með áætluninni er að leggja fram stefnu um verndun og viðhalda verndargildi í sem bestri sátt. Áætlunin var unnin af samstarfshópi landeigenda, skipulagsyfirvalda og Umhverfisstofnunar sem hefur umsjón með friðlandinu. Í stjórnunar- og verndaráætluninni eru settar sérstakar reglur um umferð manna og dvöl.

Meðal nýmæla er að bannað er að fara í land í friðlandinu ef um borð í skipi eru fleiri en 50 nema að höfðu samráði við Umhverfisstofnun.

Hundar og reiðshjól eru óheimil innan friðlandsins, en þó má vera með hunda í taumi.

Kvikmyndataka og ljósmyndun sem getur haft áhrif á náttúru svæðisins og upplifun gesta er háð leyfi Umhverfisstofnunar.

Óheimilt er að lenda þyrlum innan friðlandsins nema með leyfi Umhverfisstofnunar.

Áætluninni fylgir ýtarleg aðgerðaráætlun fyrir tímabilið 2019 -2023.

Á myndinni fagna forstjóri Umhverfisstofnunar, Kristín Linda Árnadóttir, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Kristín Ósk Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun, verndunaráfanga Hornstranda.
DEILA