„Er felmtri sleginn“ segir Hafsteinn Ingólfsson

Hafsteinn Ingólfsson og Guðrún Kristjana Kristjánsdóttir.

Hafsteinn Ingólfsson hjá Sjóferðum Hafsteins og Kiddýjar segist vera felmtri sleginn yfir nýju reglunum sem Umhverfisstofnun hefur sett um umferð og dvöl í friðlandinu á Hornströndum.  Hann sagðist hafa vitað af hugmyndum um að takmarka landtöku gesta úr skemmtiferðaskipunum sem hann gerir ekki athugasemd við, en hann hafi verið alveg grunlaus um þá ákvörðun að takmarka stærð hópa við 30 manns á vestara svæðið og 15 manns á austara svæðið.

Hafsteinn segist ekki vita hvert menn séu að fara með þessum reglum. Þær séu furðulegar og skrýtið að þetta skuli yfirhöfuð vera hægt.

Hafsteinn og Guðrún gera út þrjá báta í þjónustu við ferðamenn og taka þeir 30 manns sá minnsti, 38 manns og 48 manns sá stærsti. Að sögn Hafsteins hafa þessar reglur þau áhrif að grundvöllurinn undir rekstri bátanna hverfur þegar ekki má taka þann fjölda ferðamanna í bátinn sem hann ber. Með þessu er öryggið tekið út segir Hafsteinn , því menn verða þá að gera út minni báta.

Er þetta hægt ? segir Hafsteinn ,“hver hefur vald til þess að gera svona?“

 

DEILA