Eftirlit með fiskirækt í molum

Fiskistofa tók sér 7 mánuði til þess að svara fyrirspurnum frá Landssambandi fiseldisstöðva um fiskirækt í ám og vötnum. Af svörunum má ráða að eftirlit með fiskiræktinni er í molum.

Auk þess beitir Fiskistofa upplýsingalögum til þess að komast hjá því að veita upplýsingar um fiskiræktina. Segist Fiskistofa ekki geta veitt upplýsingar um sleppingar í ár og vötn og vísar í 9. grein upplýsingalaga. Sú grein hljóðar svo:

Takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.

„Óheimilt er að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.“

Lítur Fiskistofa því á það sem einkahagsmuni að gefa upplýsingar um sleppingarnar sem almenningur eigi ekki rétt á að vita um. Þessir einkahagsmunir krefjast þess að laxeldi í sjó verði bannað þar sem eldið ógni þeim, en eru undanþegnir því að gefa upplýsingar máli sínu til stuðnings.

Fást því ekki upplýsingar um hvort eða hve miklu er sleppt í ár og vötn og ekki heldur fást upplýsingar um það hvort seiðin sem sleppt eru úr sömu á eða vatni eða fengin annars staðar. Þessum upplýsingum er haldið frá almenningi.

Óljóst er hvort Fiskistofa hefur þær upplýsingar samkvæmt svörum til Landssambands fiskeldisstöðva. Segir í svörum Fiskistofu að það sé á ábyrgð veiðifélaga að senda upplýsingar um fiskirækt til Fiskistofu, en einnig kemur fram að Fiskistofa geri lítið sem ekkert til þess að fylgja eftir lögboðnum skyldum veiðifélaga til þess að stunda fiskirækt samkvæmt samþykktri fiskræktaráætlun og segir í svörunum að „ef vilji sé til þess að fara á svig við ákvæði fiskræktaráætlunar er nánast útilokað að standa aðila að verki og sannreyna slíkt.“

Segir í svörunum að verklag vegna eftirlits með fiskirækt sé nú til skoðunar hjá Fiskistofu.

DEILA