Bíldudalur: hafnarframkvæmdir fyrir hálfan milljarð króna

Þörf eru á miklum framkvæmdum í Bíldudalshöfn vegna stækkunar kalkþörungaverksmiðjunnar. Í fundargerð hafna- og atvinnumálaráðs Vesturbyggðar kemur fram að Íslenska kalkþörungaversmiðjan ehf hefur sótt um byggingarleyfi fyrir 1750 fermetra húsnæði og var það afgreitt á síðasta fundi nefndarinnar.

Halldór Halldórsson framkvæmdastjóri Ískalks segir að kostnaður við bygginguna verði um 300 – 400 milljónir króna. Það hleypir kostnaðinum upp, segir Halldór, að á lóðinni eru gömul hús sem þarf að rífa. Eru það Bull húsið, sem áhugamenn um það hafa hug á að endurreisa annars staðar og gömul fiskimjölsverksmiðja. Verksmiðjan þarf stærra geymsluhúsnæði fyrir afurðir sínar vegna aukinnar framleiðslu. Nýlega var starfsleyfið aukið úr 60.000 tonnum á ári í 85.000 tonn. Að sögn Halldórs hefur salan aukist og reksturinn gengur vel. Við verksmiðjuna vinna um 30 manns.

Þá hefur Ískalk sent erindi og óskað eftir því að sveitarfélagið hefjist handa við landfyllingu í samræmi við deiliskipulag fyrir hafnarsvæði Bíldudals,  þar sem starfsemi félagsins er verulega aðþrengd hvað varðar vinnu- og söfnunarsvæði fyrir hráefni af hafsbotni. Þetta munu vera um 10.000 fermetrar lóð sem þarf að búa til með landfyllingu og telur Halldór Halldórsson að kostnaðurinn geti orðið um 200 milljónir króna.

Það fer ekki á milli mála að verulegur uppgangur er í atvinnulífi Bíldudals um þessar mundir því auk kalkþörungaverksmiðjunnar eru þar höfuðstöðvar Arnarlax.

DEILA