Ágreiningur um eignarhald á jörðinni Drangar

Kortið af Dröngum sem Umhverfisstofnun birtir með áformum um friðlýsingu jarðarinnar.

Umhverfisstofnun hefur kynnt opinberlega áform um að friðlýsa jörðina Dranga í Árneshreppi sem óbyggð víðerni í samræmi við 46. gr. laga nr. 60/2013 um náttúruvernd.

Það er Fornasel ehf, sem er skráður eigandi Dranga, sem  ákvað á aðalfundi sínum að fara í þessa vegferð með friðlýsingu og hefur Umhverfisstofnun tekið framgang málsins upp á sínar herðar.

Áform um friðlýsingu eru kynnt í samræmi við 2. mgr. 38. gr. náttúruverndarlaga en gert er ráð fyrir að svæði sem ekki er á framkvæmdaáætlun náttúruminjaskrár skuli kynnt sérstaklega. Í kjölfar kynningartímans munu fulltrúar Umhverfisstofnunar, umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, landeigenda og Árneshrepps vinna drög að friðlýsingarskilmálum og leggja fyrir rétthafa lands og aðra sem hagsmuna eiga að gæta.

Friðlýsingin miðar að því að varðveita einkenni svæðisins, viðhalda fjölbreyttu og óvenjulegu landslagi sem og víðsýni, vernda heildstæð stór vistkerfi og tryggja að núlifandi og komandi kynslóðir geti notið einveru og náttúru svæðisins án truflunar af umfangsmiklum mannvirkjum og umferð vélknúinna farartækja. Í auglýsingu um friðlýsingu er heimilt að kveða nánar á um takmarkanir sem leiða af friðlýsingunni, m.a. á umferðarrétti, notkun veiðiréttar og framkvæmdum.

Nú stendur yfir kynning á kröfum ríkisins í Strandasýslu um þjóðlendur. Það er fjármálaráðherra sem setur kröfurnar fram og Óbyggðanefnd úrskurðar um ágreining milli ríkisins og annarra aðila um eignarhald á landi. Meðal krafna ríkisins er að Drangajökull verði þjóðlenda. Hins vegar er í lýsingu Umhverfisstofnunar á jörðinni Drangar ljóst að hluti Drangajökuls er talinn eigna eigenda jarðarinnar.

Það er því deila um eignarhald, það er stærð og umfang jarðarinnar Drangar sem verður skorið úr fyrir Óbyggðanefnd. Embætti sýslumannsins á Vestfjörðum hefur engar upplýsingar um landmerki jarðarinnar og því ekki ljóst á hvaða gögnum hnit jarðarinnar sem birt eru í bréfi Umhverfisstofnunar byggjast.

 

 

DEILA