25 milljarðar til vegaframkvæmda á Vestfjörðum

Í tólf ára samgönguáætluninni 2019- 2033 sem samþykkt var á Alþingi í gær er veitt 25,4 milljörðum króna til 9 framkvæmda  á Vestfjörðum sem samtals leggja um 118 km af nýjum vegum.

Langstærsti hlutinn af fjárveitingunni er á næstu fimm árum 2019-23 eða um 17,2 milljarðar króna. Á næsta fimm ára tímabili eru veittir 6,3 milljarðar króna og 1,9 milljarður króna á síðasta fimm ára tímabilinu.

Hæsta fjárhæðin er 7,2 milljarðar króna til að ljúka Dýrafjarðargöngum. Þeim fylgja nærri 12 km nýr vegur. Síðan eru 6,7 milljarðar króna til Gufudalsveitar( líklega um 20 km), þá 5,3 milljarðar króna í nýjan 35 km veg um Dynjandisheiði og svo 4,4 milljarðar króna í 30 km veg frá Bíldudalsvegi upp á Dynjandisheiði.  Þessar framkvæmdir eru  á næstu 5 árum nema 2/3 af Dynjandisheiði sem verður á 2. tímabili og Bíldudalsvegurinn sem verður á 2. og 3. fimm ára tímabili.

Í Ísafjarðadjúpi eru 820 mkr til að gera 6,5 km veg um Hestfjörð og Seyðisfjörð, 120 mkr til að leggja 2 km veg um Hvallátur. Þessar framkvæmdir verða á næstu fimm árum. Þá verður nýr 12 km lagður um Veiðileysuháls og Litlu Kleif í Norðurfirði í Árneshreppi sem kostar 740 milljónir króna. Sú framkvæmd skiptist á milli 1. og 2. fimm ára tímabils, en við lokaafgreiðslu segir meirihluti samgöngunefndar að framkvæmdinni verði flýtt án þess að séð verður hve mikið.

 

DEILA