Rannsóknir hafa leitt í ljós að gríðarlegt magn kalkþörungasets er að finna í Ísafjarðardjúpi og Jökulfjörðum. Rannsóknir Kjartans Thors á árunum 2000–2012 m.a. með endurvarpsmælingum og sýnatöku hafa leitt í ljós að magnið nemur samtals um 170 milljón rúmmetrum. ljósi stærðar þessarar auðlindar er eðlilegt og æskilegt að Íslendingar móti eigin stefnu um nýtingu hennar.
Magn kalkþörungasets í Arnarfirði áætlast um 20,5 milljónir rúmmetra að lágmarki. Þá reiknast Kjartani Thors til að um 40,4 milljónir rúmmetra af kalkþörungaseti sé í Jökulfjörðum. Annað eins magn er við Æðey. Í Seyðisfirði, Hestfirði og Skötufirði eru um 12 milljónir rúmmetra af kalkþörungaseti. Á grynningum við Kaldalón eru áætlaðar um 18 milljónir rúmmetra. Meðfram vesturströnd Mjóafjarðar,allt frá brú út undir Ögurhólma eru um 26 milljónir rúmmetra af seti. Við Vatnsfjörð og á grynningum við Borgarey eru um 10 milljónir rúmmetra á hvorum stað. Alls telur Kjartan að í Djúpinu og Jökulfjörðum séu um 140 milljónir rúmmetra af kalkþörungaseti.
Grein Kjartans nefnist: Útbreiðsla og magn kalkþörungasets á Vestfjörðum og í Húnaflóa, og voru rannsóknirnar að mestu unnar fyrir Íslenska kalkþörungafélagið ehf. sem hefur rekið kalkþörungavinnslu í Bíldudal frá 2007.
Greinin birtist í nýútkomnu tölublaði af Náttúrufræðingnum, 3.–4. hefti 88. árgangs. Hægt er að kaupa áskrift. Að jafnaði eru gefin út fjögur hefti á ári. Félagsgjald og innifalin áskrift kostar 5.800 kr. og er veittur afsláttur fyrir stúdenta og fyrir hjón. Greinar í tímaritinu eru að jafnaði ekki ekki opnar til birtingar í heilu lagi annars staðar fyrr en þremur árum eftir birtingu en ofangreindar upplýsingar eru birtar með samþykki höfundar.
Ritstjóri er Álfheiður Ingadóttur, líffræðingur.