112 dagurinn : Lionsklúbbur Patreksfjarðar gaf veglegar gjafir

1-1-2 dagurinn var haldinn hátíðlegur í Félagsheimili Patreksfjarðar í gær, þann 11. febrúar. Neyðaraðilar á svæðinu tóku höndum saman og buðu íbúum í veitingar og fræðslu. Fólk á öllum aldri mætti á staðinn til að sjá, fræðast og nærast.

Hluti af dagskránni var formleg afhending gjafa Lionsklúbbs Patreksfjarðar til Slökkviliðs Patreksfjarðar, Björgunarsveitarinnar Blakks og Hollvinafélags sjúkraflutningamanna á Patreksfirði. Samtals verðmæti þeirra gjafa sem afhendar voru formlega í gær er rúmlega 3,7 milljónir króna. Lionsklúbburinn er gríðarlega stoltur af sínu starfi og tækifærinu sem fæst í kjölfarið, að vera færir um að styrkja nærsamfélagið veglega. Mjög ánægjulegt þykir okkur að gjafir þessar nýtast vel þegar allt er undir og jafnvel mannslíf í húfi.

Davíð Rúnar Gunnarsson slökkvistjóri tók við hitamyndavél sem nýtist einkar vel við slökkvistörf. Með tilkomu hitamyndavélarinnar verður reyköfun öruggari, fljótvirkari og árangursríkari til mannbjörgunar í eldsvoðum. Einnig hjálpar hún til við að leita af eldi inn í klæðningum og ýmsum öðrum verkum.

Í tilefni 50 ára afmælis Björgunarsveitarinnar Blakks var sveitinni færður björgunardróni. Siggier Guðnason formaður Blakks tók við gjöfinni fyrir hönd sveitarinnar. Dróninn er af nýjustu og fullkomnustu gerð. Hann er útbúinn tveimur öflugum myndavélum, annars vegar hitamyndavél og hins vegar aðdráttarmyndavél. Ljóst er dróninn er sá allra fullkomnasti sinnar tegundar á landinu.

Sjúkraflutningamönnum á Patreksfirði var færður upplýsingarskjár. Helgi Páll Pálmason, sjúkraflutningamaður tók á móti skjánum fyrir þeirra hönd. Skjár þessi er beintengdur við Neyðarlínu. Á skjáinn fá sjúkraflutningamenn upplýsingar jafnóðum er tengist þeim sjúklingi sem á að sinna. Sem dæmi má nefna nákvæma staðsetningu sem birtist í leiðsögukerfi, mikilvægar upplýsingar úr sjúkraskrá eins og t.d. ofnæmi eða lyfjaóþol.

Er það von Lionsklúbbs Patreksfjarðar að þessar gjafir muni koma að góðum notum og vill þakka viðbragsaðilum fyrir sitt óeigingjarna starf í þágu samfélagsins.

Jónas Sigurðsson og Helga Gísladóttir.
DEILA