Vísindaportið : Framtíðarhlutverk almenningsbókasafna

Gestur í fyrsta Vísindaporti ársins er Jóna Símonía Bjarnadóttir. Í erindinu verður fjallað um rannsókn sem hún vann til meistaragráðu, á viðhorfi forstöðumanna almenningsbókasafna á Íslandi og sveitarstjórnarmanna til þess hvert framtíðarhlutverk almenningsbókasafna er í íslensku samfélagi. Markmið rannsóknarinnar er að kanna hvort samhljómur sé í sýn þessara tveggja hópa og hvort hún samrýmist núgildandi lögum um bókasöfn nr. 120/2012. Rannsóknin var birt sem MLIS-ritgerð við Háskóla Íslands “Staður til að vera á Framtíðarhlutverk almenningsbókasafna” árið 2018.
Jóna Símonía er með BA-próf í sagnfræði frá HÍ, Uppeldis- og kennslufræði frá KHÍ, diplómu í safnafræði og lauk hún sem fyrr sagði nýlega MLIS-gráðu (Master of Library & Information Science). Jóna Símonía vann sem héraðsskjalavörður 1993-2010 og var einnig forstöðumaður Byggðasafns Vestfjarða 1998. Frá árinu 2010 hefur hún verið forstöðumaður Safnahússins á Ísafirði.
Vísindaportið fer fram í kaffistofu Háskólaseturs kl. 12:10-13. Allir velkomnir.
Jóna Símonía Bjarnadóttir.
DEILA