Vestfirðir: fasteignaverð 1/3 af verði á höfuðborgarsvæðinu

Verð á fasteignum á Vestfjörðum er aðeins 1/3 af verðinu á höfuðborgarsvæðinu. Þetta má lesa úr gögnum á vef Þjóðskrár. Skoðað var verð á 12 mánaða tímabili frá okr 2017 til september 2018 bæði á Vestfjörðum og á höfuðborgarsvæðinu.

Á höfuðborgarsvæðinu er meðalverð allra eigna pr samning á þessu tímabili 50,3 milljónir króna en aðeins 16,4 milljónir króna á Vestfjörðum. Verðið á Vestfjörðum er 33% af verðinu á höfuðborgarsvæðinu.  Lægst er verðið á Vestfjörðum miðað við höfuðborgarsvæðið á sérbýli. Þar er hlutfallið aðeins 23% af verði á höfuborgarsvæðinu. Í krónum talið er verðið á sérbýli á Vestfjörðum 16,7 milljónir króna en 73 milljónir króna á höfuðborgarsvæðinu. Þarna munar 56,3 milljónum króna.

Samanburður á verði á Vestfjörðum og höfuðborgarsvæðinu.
frá okt. 2017 til sept 2018. Meðalverð pr. samning í mkr.
Hbsv Vestfirðir Hlutfall
fjölbýli 44,2 14,3 32%
sérbýli 73 16,7 23%
aðrar eignir 66,2 20,3 31%
samtals 50,3 16,4 33%
Heimild:Þjóðskrá.

Fasteignaverð á Vestfjörðum var 1995 64% af fasteignaverði á höfuðborgarsvæðinu samkvæmt því sem fram kemur í skýrslu Iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins frá nóvember 2005 sem heitir Landfræðilegt litróf íslenska fasteignamarkaðarins.  Þetta hlutfall lækkað hratt og var 2004 komið niður í 28% af verði á höfuðborgarsvæðinu.

Stærsta skýringin á þessari þróun er samkvæmt því sem fram kemur í skýrslunni að verð á íbúðarhúsnæði hækkað frá 1990 til 2004 um 52% að raungildi á höfuðborgarsvæðinu en lækkaði á sama tíma á Vestfjörðum um 28% að raungildi. Í skýrslunni er ennfremur bent á tvær ástæður sem hafa áhrif á verðþróun fasteigna. Önnur er hagvöxtur svæðisins og hin er launaþróun. Laun á Vestfjörðum hækkuðu um 15% á þessu tímabili frá 1990 að raungildi en um 35% á höfuðborgarsvæðinu. Ekki voru tiltækar upplýsingar um svæðisbundinn hagvöxt á þessum tíma.

Frá 1997 til 2000 fór stærsti hluti fiskveiðikvótans á norðanverðum Vestfjörðum  úr fjórðungnum til annarra fyrirtækja.

Miðað við síðustu tölur Þjóðskrár hefur fasteignaverðið á Vestfjörðum lítið hækkað í hlutfalli við höfuðborgarsvæðið.

DEILA