Þrír elstu stúlknahópar Vestra lögðu land undir fót um síðastliðna helgi. Sjöundi flokkur stúlkna lék í B-riðli Íslandsmótsins sem fram fór í Þorlákshöfn, stúlknaflokkur mætti FSu á Selfossi á sunnudag og 10. flokkur mætti Snæfelli í Stykkishólmi á sama tíma.
Góður seinni hálfleikur á Selfossi
Stúlknaflokkur Vestra er skipaður stelpum sem allar eru fæddar 2002 en í þessum flokki Íslandsmótsins eru keppendur fæddir á bilinu 2000-2002. Lið Vestra nýtur einnig liðsinnis frá stelpum í 9. og 10. flokki (fæddar 2003 og 2004) og að þessu sinni voru það 9. flokks stúlkur sem tóku þátt í verkefninu. Það gefur því auga leið að Vestra stelpur mæta iðulega talsvert eldri stelpum í þessum flokki. FSu byrjaði leikinn mun betur og má segja að forskotið sem þær skópu í upphafi hafi skilað þeim sigri. Vestrastelpur léku mjög vel í seinni hálfleik og sýndu þá hve miklum framförum liðið hefur tekið í vetur. Þær söxuðu á forskotið sem þó var of stórt þegar upp var staðið og lokatölurnar 73-50 fyrir FSu.
Yngvi Gunnlaugsson, þjálfari liðsins, var ánægður með framfarirnar sem liðið sýndi í verki í þessum leik en til marks um þær má geta þess að liðin tvö mættust í haust en þá fóru leikar 29-75 FSu í vil.
Stigaskor Vestra: Snæfríður 14, Dagbjört 11, Ivana 11, Hjördís 8, Viktoría 4, Silfá 2.
Sterkur sigur í Stykkishólmi
Í Stykkishólmi mættust svo á sama tíma Snæfell og Vestri í 10. flokk stúlkna. Oft hafa viðureignir þessara liða verið jafnar og úrslit ekki ráðist fyrr en á lokasekúndum. Það stefndi í enn eina jafna viðureignina í fyrri hálfleik. Vestrastúlkur voru skrefinu á undan í fyrsta fjórðungi en í öðrum fjórðungi duttu þriggja stigaskot Snæfells niður á sama tíma og illa gekk hjá Vestra að klára færi. Snæfell leiddi því 27 gegn 24 þegar flautað var til háfleiks. Í seinni hálfleik mættu Vestrastelpur ákveðnar til leiks. Vörnin varð þéttari sem skilaði góðum körfum úr hraðaupphlaupum auk þess sem þær kláruðu betur færi en í fyrri hálfleik. Úr varð öruggur sigur Vestra 38-60.
Nemanja Knezevic, þjálfari liðsins, sagði þetta mjög mikilvægan sigur gegn sterkum andstæðingi. Hann var stoltur af stelpunum og sérstaklega spilamennsku þeirra í seinni hálfleik. Nemanja tók fram að allir leikmenn hefðu skilað sínu hlutverki mjög vel og bætti því við að svona ætti liðið að spila í hverjum einasta leik.
Stigaskor Vestra: Helena 22, Sara 15, Rakel 8, Hera 7, Gréta 6, Vala 2
7. flokkur lék í B-riðill í Þorlákshöfn
Stelpurnar í 7. flokki Vestra lögðu einnig land undir fót til Þorlákshafnar á laugardag þar sem þriðja umferð Íslandsmótsins í B-riðli fór fram. Þar öttu þær kappi við lið Njarðvíkur, Breiðabliks, Stjörnunnar og sameiginlegt lið sunnlenskra iðkenda, sem kepptu undir merkjum Þórs Þorlákshafnar. Það lið kom niður úr A-riðli eftir síðasta fjölliðamót. Leikar fóru þannig að Vestri sigraði Breiðablik og Stjörnuna en varð að lúta í lægra haldi fyrir Njarðvík og Þór. Sá leikur tapaðist þó aðeins með sjö stigum og höfðu Vestrastelpur yfirhöndina allan fyrri hálfleik. Þór vann alla sína fjóra leiki og fer upp í A-riðil á nýjan leik. Því er ljóst að getumunurinn á milli Vestra og sterkasta liðsins í B-riðli var ekki teljanlegur. Það er Haukur Hreinsson sem hefur þjálfað stelpurnar í 7. flokki á þessari leiktíð og hann var kampakátur með framfarirnar sem þær hafa sýnt í vetur. Næsta umferð stelpnanna fer fram helgina 8.-10. mars og verður spennandi að fylgjast með framvindu þeirra fram að móti.