Sauðfjársamningur breytist

Unnur Brá Konráðsdóttir, Bjarni Benediktsson, Kristján Þór Júlíusson, Sindri Sigurgeirsson og Oddný Steina Valsdóttir. Mynd: bondi.is

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda hafa skrifað undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði sauðfjárræktarinnar. Markmið samkomulagsins er meðal annars að stuðla að auknu jafnvægi framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir. Áhersla er lögð á að auðvelda aðlögun að breyttum búskaparháttum eða nýrri starfsemi með sérstökum aðlögunarsamningum. Breytingunum fylgja ekki aukin útgjöld úr ríkissjóði.

Aðlögun

Helsta breytingin er sú að framleiðendur geta áfram fengið óbreyttan stuðning samkvæmt beingreiðslum en dregið úr framleiðslu og fækkað griðum. Gefur það svigrúm til þess að snúa sér að annarri atvinnustarfsemi. Bændur geta óskað eftir því að gera slíka samninga alveg til 2022.

Markaður fyrir greiðslumark

Annað nýmæli er að taka upp markað fyrir greiðslumark sem verður á höndum Búnaðarstofu Matvælastofnunar. Greiðslumark verður innleyst og boðið til sölu á innlausnarverði ár hvert. Heimilt er að gefa ákveðnum hópum framleiðenda forgang á kaupum á því greiðslumarki sem boðið verður til sölu hverju sinni.

Aukið jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar á markaði með sauðfjárafurðir

Til að stuðla að framleiðslujafnvægi á sauðfjárafurðum verður fjárhæðum ráðstafað til þess að bregðast við breytingum á framboði og eftirspurn á markaði. Það verður m.a. gert með því að efla markaðsfærslu sauðfjárafurða og greiða sérstakar uppbætur fyrir slátrun áa til fækkunar. Þá verður komið á fót svokallaðri innanlandsvog sem skilgreinir þarfir og eftirspurn innanlandsmarkaðar eftir kindakjöti. Álagsgreiðslur vegna gæðastýringar munu skiptast á þann hluta heildarframleiðslunnar sem ætlaður er til innanlandsmarkaðar.

Ásetningshlutfall verður lækkað úr 0,7 í 0,6 frá og með 1. janúar 2020. Það þýðir að fjöldi vetrarfóðraðra kinda vera að lágmarki 0,6 á hvert ærgildi greiðslumarks á lögbýli.

DEILA