Kostnaður Vegagerðarinnar orðinn 432 milljónir króna vegna Þ-H leiðar

Allt frá 2003 hefur verið unnið að því að ákveða veglínuna í Austur Barðastrandarsýslu frá Eyri að Bjarkalundi. Lokið er vegagerð frá Eyri að Melanesi en þaðan frá og austur að Bjarkalundi er henni enn ólokið. Þar er hið umdeilda vegstæði í vestanverðum Þorskafirði, sem í fyrstu hét B leið og síðar Þ-H leið og liggur að hluta til i jaðri Teigsskógar.

Vegagerðin lagði til í nóvember 2005 með matsskýrslu til umhverfismats að B leiðin yrði farin. Var það m.a. að kröfu sveitarfélaganna. Hefur verið unnið að framgangi þessarar tillögu síðan og sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti þann 8. mars 2018 að afgreiða aðalskipulagsbreytingar fyrir Þ-H leiðina. Þær breytingar hafa ekki enn farið í auglýsingu, sem er lokastigið í afgreiðslu málsins fyrir veitingu formlegs framkvæmdaleyfis til Vegagerðarinnar.

Kostnaður Vegagerðarinnar vegna þessa máls er orðinn 432 milljónir króna á verðlagi síðasta árs. Um er um að ræða kostnað sem í bókhaldi Vegagerðarinnar hefur verið færður á verkefnið. Gera má ráð fyrir að til viðbótar hafi nokkur kostnaður fallið til vegna starfa við almenna stjórnun og undirbúning, segir í skýringum Vegagerðarinnar.

Endurgreiðir Reykhólahreppur Vegagerðinni?

Inn í þessum kostnaði eru greiðslur Vegagerðarinnar til Reykhólahrepps vegna kostnaðar sem fellur á sveitarfélagið vegna aðalskipulagsbreytinga sem tengjast væntanlegri veglínu. Ekki kemur fram hvað það er há upphæð, sem sveitarfélagið hefur fengið endurgreitt frá Vegagerðinni.

Ákveði Reykhólahreppur að hætta við Þ-H leið og snúa sér að R leið vaknar spurningin hvort sveitarfélagið eigi ekki að endurgreiða Vegagerðinni þá fjárhæð sem Vegagerðin hefur greitt vegna vinnu að Þ-H leiðinni í gegnum árin. Heimild sveitarfélags til þess að innheimta kostnað af skipulagsbreytingum vegna einstakra framkvæmda er háð því að af framkvæmd verði og leyfið verði veitt. Hætti sveitarfélagið við verður ekki séð að skipulagslög heimili gjaldtökuna og þá blasir við að Vegagerðin eigi endurkröfu á hendur sveitarfélaginu fyrir þeirri fjárhæð sem hún hefur greitt sveitarfélaginu.

Hvernig svo sem þessi endurgreiðsluhluti málsins er vaxinn verður það að teljast illa farið með opinbert fé að nærri hálfum milljarði króna verði kastað á glæ.

 

DEILA