Jólahugleiðing: Myrkur jólanna

I.

Það er myrkur í jólafrásögnum guðspjallanna.  Það er myrkur í tvennum skilningi.  Í fyrsta lagi er það náttmyrkið.  Fjárhirðar eru út í haga og í næturmyrkrinu sjá þeir allt í einu ljós.  Engill birtist þeim í ljósinu og segir þeim frá fæðingu frelsarans.  Fleiri englar birtast og syngja.  En svo verður aftur dimmt.  Og við ljóstýru lugtar eða frá logandi blysi halda fjárhirðarnir af stað að leita að nýfæddu barni í myrkinu og það eina, sem þeir vita, er að barnið liggur í jötu.

Þrír vitringar horfa upp í næturhimininn og sjá nýja stjörnu birtast.  Stjarnin skín skært í myrkrinu og vitringarnir hugsa að þetta sé fyrir stórtíðindum.  Einnig þeir halda af stað að leita að því, sem ljósið í myrkrinu vísar þeim á.

Ljósið skín í myrkrinu.  Ekkert er eins fallegt og eitt ljós, sem logar í næturhúminu.  Eitt ljós, sem lýsir upp lítinn blett í alheiminum með fyrirheit um eitthvað gott!  Þannig skynjum við jólaljósin, sem lýsa upp híbýli okkar.  Þau eru tákn um eitthvað gott, um vonina, kærleikanna eða hvaðeina, sem við tengjum boðskap jólanna.  Trúaðir sem vantrúaðir, við höfum öll þessa tilfinningu gagnvart jólaljósunum.

II.

Þegar ég var lítill drengur þá sá ég aðeins fegurð jólanna.  Það voru pakkar undir jólatrénu, fallegur söngur ómaði og allir voru glaðir.  Og myndirnar af Jesúbarninu á jólakortunum voru svo fallegar.  Þarna var fólk í litklæðum.  Og svo átti ég töfrakúlu, sem sýndi fjárhúsið og hina heilögu fjölskyldu.  Og þegar ég hristi kúluna þá feyktist upp snjór, sem snérist í kringum fjárhúsið.  Jólin voru tími töfra og ævintýra.

En þegar ég var orðinn fullorðin og las jólafrásagnir guðspjallanna þá fór um mig hrollur.  Það var þá, sem ég skynjaði hitt myrkrið, myrkur sálarinnar, það andans myrkur, sem brýst út í grimmd og miskunnarleysi.  Og allt í einu gerði ég mér grein fyrir vandræðunum, sem Jósef og María voru í.  Hvergi var rúm fyrir þau í mannabústöðum og þau urðu að vera í fjárhúshelli.  María fæddi barnið sitt í fjárhúshelli.  Umgjörð fæðingar verður vart fátæklegri en þetta.  Jólaguðspjallið er saga af fátæku fólki.

Og meira en það; þetta er saga af fátæku fólki í hersetnu landi, fólki, sem var kúgað af landstjóra hernámsliðsins og hinum grimma leppkonungi þeirra.  Þetta er saga af fólki, sem var sett í fangelsi ef það dirfðist að gagnrýna stjórnvöld landsins.  Þetta er saga af fólki eins og honum Jóhannesi skírara, sem var hálshöggvin fyrir það að gagnrýna spillingu og siðferðilegt skipbrot valdsherranna.

Vitringarnir fóru að leita að nýfæddum konungi.  Og auðvitað fóru þeir í konungshöllina í Jerúsalem og spurðu eftir nýfæddu barni.  En það var ekkert barn þar.  Í höllinni var myrkur illsku og tortryggni.  Herodes gamli var svo vænisjúkur að hann lét taka tvo syni sína af lífi svo þeir gætu ekki ógnað veldi hans.  Vitringarnir voru kjánar að fara í höllina til Heródesar.  Nú vildi hann sjá þetta nýfædda barn, sem spádómar Gamla testamentisins sögðu að yrði sonur Davíðs, arftaki Davíðs konungs, Messías Hebreanna.  Sjálfsagt hefur Heródes brosað smeðjulega framan í vitringana þegar hann bað þá að láta sig vita um leið og þeir finndu barnið.  En í augum hans og huga var myrkur.

Sem betur fer þá tók Guð í taumana.  Hann gaf vitringunum bendingu um það í draumi að láta Heródes gamla ekki vita heldur lauma sér burt úr landinu.  Og hann talaði til Jósefs í draumi og sagði honum að flýja með Jesúbarnið og móður þess svo að Heródes gæti ekki unnið þeim mein.  Já, fjölskylda Jesú var flóttafólk, þau flúðu til Egyptalands, voru á vergangi í nokkur ár áður en þau áræddu að snúa aftur heim til Ísraels.

III.

Það er myrkur í mannheimum.  Jólaguðspjallið greinir frá því.  Og fréttirnar í útvarpinu og á netinu segja einnig frá illsku heimsins.  Og hún er ekki bara bundin við útlönd.  Einnig hér heima á Íslandi er hægt að finna dæmi um skort á kærleika, breyskleika, óheiðarleika, jafnvel grimmd má finna meðal okkar.

Ég sá konu í sjónvarpinu.  Hún var með slæðu um hárið.  Líklega var María guðsmóðir einnig með slæðu um höfuðið.  Þessi kona hafði líkt og guðsmóðirin hrakist burt úr heimalandi sínu, sem var Afganisthan.  Hún var búin að vera flóttamaður og án ríkisfangs nær allt sitt líf.  Og núna hér á Íslandi þá fékk hún stórkostlega jólagjöf.  Hún fékk ríkisborgararétt á Íslandi, ásam 42 öðrum einstaklingum.  Þetta var það síðasta, sem Alþingi Íslendinga gerði fyrir jólafríið.  Þetta var jólagjöf Alþingis.

Eða hann Jóel Færseth Einarsson, mánaðargamall drengur, sem fæddur var á Indlandi af staðgöngumóður.  Hann á íslenska foreldra en þau gátu ekki komið með barnið til Íslands því hann var ríkisfangslaus.  En Alþingi Íslendinga sýndi fjölskyldunni miskunn og veitti nýfædda drengnum ríkisfang með 50 samhljóða atkvæðum.  Þau munu nú geta haldið jól á Íslandi.

Sagan um Jesúbarnið og fjölskyldu þess, sem þurfti að flýja í næturmyrkrinu til annars lands er að breyttu breytanda alltaf að endurtaka sig hér í heimi.  Og ástæðan er yfirleitt myrkur haturs og átaka, myrkur ofsókna og kúgunar.

IV.

Ljósið skín í myrkrinu.  Guð fæddist inn í þennan heim til að eyða myrkrinu.  Hann kom til að segja okkur frá kærleikanum og að í þessum heimi væru allir menn systur og bræður.  Og við ættum jörðina saman.  Ein jörð, eitt mannkyn.  Og þess vegna ætti að ríkja friður á jörðu.

Um þetta sungu englarnir á Betlehemsvöllum.  Um þetta snúast jölin.  Við höldum jól til að kveikja í hjörtum okkar von kærleikans, von trúar.

Hver svo sem þín lífsafstaða er, hvar svo sem þú ert núna staddur, þá bið ég þess að Guð alheimsins gefi þér gleðileg jól.  Amen.

 

Magnús Erlingsson,

prestur á Ísafirði.

 

Jólahugleiðing sem birtist í blaðinu Vestfirðir 20. desember 2018

Sr. Magnús Erlingsson, prófastur.
DEILA