Icelandic wildlife fund segir í yfirlýsingu á facebook að með fyrirhuguðu frumvarpi um fiskeldi sé ráðherra að ráðast með stríðsyfirlýsingu gegn vísindum og lífríki Íslands.
Yfirlýsingin í heild er svohljóðandi:
Drög Kristjáns Þórs Júlíussonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, að frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lagaákvæðum sem tengjast fiskeldi, eru stríðsyfirlýsing á hendur þeim sem vilja vernda lífríkið og starfa á vísindalegum grundvelli.
Með því að leggja þessi drög fram hefur ráðherra sýnt svo ekki verður um villst að hann hefur tekið sér stöðu með hagsmunagæslumönnum sjókvíaeldisfyrirtækjanna gegn vísindamönnum Hafrannsóknastofnunnar og nátturuverndarsamtökum.
Í frumvarpsdrögunum leggur ráðherra til þær breytingar að það verði á hans valdi að gefa út svokallað áhættumat erfðablöndunar en samkvæmt fyrra frumvarpi var áhættumat Hafrannsóknastofnunar bindandi fyrir ráðherra.
Það er algjörlega óásættanlegt að áhættumatið verði gert pólitískt með þessum hætti.
Samkvæmt núverandi áhættumati Hafrannsóknastofnunar er gert ráð fyrir að allt að 4 prósent fiska í ám landsins séu fiskar sem hafa sloppið úr eldi. Með öðrum orðum að 1 af hverjum 25 fiskum í íslenskum ám geta verið norskir eldislaxar. Það er óhugnanleg tala. Sjókvíaeldisfyrirtækjunum finnst þetta áhættumat hins vegar ganga of langt og vilja fá þröskuldinn hækkaðan verulega. Þau vilja fá svigrúm frá löggjafanum til enn rýmri mistaka þar sem fiskar sleppa úr sjókvíunum. Hafrannsóknastofnun hefur mátt sæta þungum þrýstingi af þeirra hálfu og óskaði Landssambands fiskeldisstöðva meðal annars eftir því í fyrra að stofnunin myndi endurskoða matið. Hafrannsóknastofnun hafnaði því en nú ætlar ráðherra að taka valdið til sín svo hægt verði að ganga fram hjá vísindalegum vinnubrögðum.
Hagsmunagæslumenn sjókvíaeldisins hófu að grafa undan Hafrannsóknastofnun strax í kjölfar þess að áhættumatið var gefið út í júlí 2017.
Þegar Kristján Þór lagði fyrir Alþingi í apríl 2018 fyrirrennara þess frumvarps sem hér um ræðir, kom í ræðustól Halla Signý Kristjándsóttir, en hún hefur verið ötul talskona sjókvíaeldisfyrirtækjanna á þingi. Hún sagði: „Grunnur undir leyfi og öðru slíku er áhættumatið sem skiptir miklu máli að sé opið og í stöðugri þróun. Fiskeldisfyrirtækin eru tilbúin að vinna með vísindamönnum að ásættanlegum lausnum enda verða þau alltaf að vera á vaktinni. Því er mikilvægt að Hafrannsóknastofnun vinni út frá því að uppfæra áhættumatið um leið og fyrirtækin telja sig hafa betri lausnir. Í aflaráðgjöf í botnfiski kemur Hafrannsóknastofnun með ráðgjöf til ráðherrans sem kallar eftir umsögnum og gefur svo út endanlega ákvörðun sjálfur en hér virðist vera gert ráð fyrir að Hafrannsóknastofnun hafi síðasta orðið. Það er æskilegt að áhættumatið sé ekki lokað inni í ósveigjanlegu kerfi. Því spyr ég hæstv. ráðherra hvort ekki verði tryggt að hægt verði að hafa svipað ferli í þessu eins og t.d. í aflaráðgjöfinni.“
Grímulausara verður það ekki. Vísindin skal að engu hafa. Pólitíkin á að ráða þessu.
Í þessu samhengi er gott að rifja upp að fræðin og vísindin eru öll á eina leið: Eldisfiskar sem sleppa úr sjókvíum ógna villtum laxastofnum. „Sleppifiskur úr eldi er stærsta ógn“ laxastofna segir norska Vísindaráðið um nýtingu laxins (Vitenskapelig råd for lakseforvaltning) og hér á landi hefur Erfðanefnd Landbúnaðarins ráðlagt stjórnvöldum að stöðva útgáfu leyfa til eldis með frjóum norskum eldislaxi í opnum sjókvíum.
Samkvæmt frumvarpsdrögum Kristjáns Þórs, er gert ráð fyrir að ráðherra skipi „samráðsvettvang“ sem á að vera stjórnvöldum til ráðgjafar vegna málefna fiskeldis. Í frumvarpinu segir: „Hlutverk vettvangsins er að leggja mat á forsendur og úrvinnslu þeirra gagna sem áhættumat erfðablöndunar byggir á.“
Þetta er afar sérstakt ákvæði. Ekki er gert ráð fyrir að í þessum sjö manna samráðsvettvangi taki sæti vísindafólk til að rýna fræðilegar niðurstöður og gögn Hafrannsóknarstofnunar, heldur mun vettvangurinn vera skipaður þremur fulltrúum ráðherra, einum fulltrúa eldisfyrirtækjanna, einum frá sambandi íslenskra sveitarfélaga og svo loks einum frá Hafrannsóknastofnun og einum frá Landssambandi veiðifélaga.
Engin ástæða er til að efast um að þetta á fyrst og fremst að vera vettvangur fulltrúa ráðherra til að færa honum í hendur þá niðurstöðu sem hann vill og gefa honum þannig skjól til að fara gegn mati Hafrannsóknastofnunar.
Þetta er fráleitt fyrirkomulag. Ef ráðherra telur nauðsyn á að hafa samráðsvettvang til rýningar á áhættumatinu á sá hópur að sjálfsögðu að vera skipaður hlutlausu vísindafólki. Norska Vísindaráðið um laxinn er til dæmis skipað þrettán vísindamönnum frá sjö mismundandi stofnunum og háskólum.
Markmið ráðherra eru augljóslega að láta undan þrýstingi sjókvíaeldisfyrirtækjanna og hækka þröskuld áhættumatsins. Þetta ætlar hann að gera þvert á viðvaranir vísindamanna sem sýna okkur að við Íslendingar eigum að fara í hina áttina: Lækka þröskuldinn og stefna að því að hann verði núll. Það er ekki ásættanlegt að einn einasti norskur eldislax gangi í íslenskar ár.
IWF mun berjast gegn því að þetta frumvarp verði óbreytt að lögum með öllum tiltækum ráðum.
Drögin að þessum óskapnaði er hægt að lesa í samráðsgátt stjórnvalda.