Ísafjörður: nýtt björgunarskip á leiðinni

Björgunarbátasjóður Ísafjarðar hefur fest kaup á nýju skipi sem koma á í stað Gunnars Friðrikssonar. Þetta kemur fram í erindi stjórnar sjóðsins til Hafnarstjórnar Ísafjarðar. Þar kemur fram að í lok ársins 2018 hafi náðst samkomulag um kaup á skipinu RS Skuld. Þrátt fyrir að um notað skip sé að ræða hefur það mun betri ganghraða en núverandi Gunnar, þar er aðstaða fyrir áhöfn og sjúklinga mun betri auk þess að hafa öflugan björgunarbúnað um borð svosem krana, dráttarkrók og dráttarspil.

Stjórn Björgunarbátasjóðs Vestfjarða vinnur nú að því að fullfjármagna kaupin og leitar til Ísafjarðarbæjar um samstarf næstu árin sem yrði þannig að hafnirnar hefðu ótakmörkuð afnot af bátnum við störf sín gegn árlegri styrkupphæð til dæmis 1 milljón á ári til 3 ára.

Vísað er til fordæmis af þessu tagi frá Fjarðabyggð.

Hafnarstjórn tók vel í erindið og fól hafnarstjóra að vinna ásamt Björgunarbátasjóðnum að drögum að samkomulagi sem lagt verður fyrir nefndina.

Hér að neðan eru svo helstu tæknilegu upplýsingar um skipið:

Byggingarár: 1990, lengt 1995 og vélar teknar upp árið 2000. Ganghraði: 25-26 mílur.
Þyngd: 27 tonn Lengd: 16.24 metrar Breidd: 4.7 metrar Djúprista: 1.7 metrar
Eldsneytistankar: 3.85 m3 Ferskvatn: 0.25 m3 Sleppikrókur: 8.1 tonn
Aðalvélar: MAN Diesel 2x D2842 LE 405, 2x 662 kW. Ljósavél: Perkins 24 kW
Gír: Mekanord 235 HSCIS L/H Björgunarbúnaður: Brunadælur og lensidælur,
sleppikrókur, hitamyndavél. Búnaður á dekki: Spil, krani, léttabátur.

 

DEILA