Illskásti kosturinn

Eiríkur Kristjánsson, Reykhólum.

Eins og alþjóð veit standa nú öll spjót á Reykhólahreppi varðandi veglagningu Vestfjarðavegar (60) um Gufudalssveit. Á undanförnu ári eða svo hafa vendingar í málinu verið með miklum ólíkindum, ekki síst vegna útspila hreppsins, fyrst með aðkomu verkfræðistofunnar Multiconsult og seinna með valkostagreiningu sem unnin var af Viaplan. Nú á dögunum kom svo fram umferðaröryggismat unnið fyrir vegagerðina. Allar þessar skýrslur hafa verið vel kynntar og mikið fjallað um þær í fjölmiðlum og ætla ég því ekki að fjalla nánar um innihald þeirra hér.

Bæði sveitarstjóri og hreppsnefndarmenn hafa lýst því að niðurstöðu sé að vænta á fundi sem fyrirhugaður er þann 16. janúar nk.

Þann 11. janúar sat ég fund í skipulags-húsnæðis og hafnarnefnd Reykhólahrepps í forföllum eins aðalmanns hennar. Þar var m.a. Tekin fyrir áðurnefnt umferðaröryggismat og í framhaldi aðalskipulagstillaga um legu Vestfjarðavegar (60).

Eftirfarandi var bókað:

 

,,2. Vestfjarðavegur-leiðarval-umferðaröryggisrýni:

 

Lögð fram frumdrög Vegagerðarinnar að umferðaröryggismati Vestfjarðavegar milli Borgarlandsvegar við Berufjörð að Skálanesi við Þorskafjörð. Nefndin fagnar drögunum sem staðfesta að lagfæringar  á Reykhólasveitarvegi milli Reykhóla og núverandi Vestfjarðavegar eru bráðnauðsynlegar. Nefndin hvetur Vegagerðina til úrbóta svo fljótt sem verða má.

 

Tekið fyrir leiðarval Vestfjarðavegar vegna fyrirhugaðra endurskoðunar á aðalskipulagi Reykhólahrepps.

Eiríkur lagði fram svohljóðandi greinargerð og tillögu;

 

,,Á fundi Skipulags-húsnæðis og hafnarnefndar Reykhólahrepps þann 9. júlí 2018 var lagt til að fresta auglýsingu er varðaði aðalskipulagsbreytingu vegna vegagerðar á Vestfjarðavegi (60), á meðan könnuð yrði svokölluð R-leið um Reykjanes og yfir Þorskafjörð utanverðan. Það var í framhaldi samþykkt í hreppsnefnd.

Síðan þá hefur mikil vinna farið fram við að meta R-leið frá ýmsum sjónarhornum. Á dögunum kom fram umferðaröryggismat á leiðum milli Borgarlandsvegar við Berufjörð að Skálanesi við Þorskafjörð sem nú hefur verið kynnt á íbúafundi.

Þar kemur fram að veglagning um Reykjanes kemur langverst út hvað varðar umferðaröryggi sem leiðir að því að hún stenst ekki samanburð við áður framkomna aðalskipulagsbreytingu m.t.t. 28.gr vegalaga.

Verði farið að spyrða endurgerð ,,Reykhólasveitarvegar” saman við fyrirliggjandi veglagningu, mun það setja málið enn eina ferðina í uppnám, bæði hvað varðar fjármagn og tíma, með ófyrirséðu tjóni fyrir Reykhólahrepp sem og nágrannasveitarfélög.

Skipulags-húsnæðis og hafnarnefnd leggur til að Reykhólahreppur auglýsi áður framkomna aðalskipulagsbreytingu (1708019) í B-deild stjórnartíðinda.”

 

Tillagan felld með tveimur atkvæðum gegn einu.

 

Karl Kristjánsson og Ingimar Ingimarsson lögðu fram svohljóðandi greinargerð og tillögu:

,,S.H.H. leggur til við sveitarstjórn Reykhólahrepps að leið R frá Karlseyjarvegi að Skálanesi verði sett á aðalskipulag Reykhólahrepps. Ljóst er að samfélagslegir hagsmunir Reykhólahrepps og umhverfissjónarmiðum verði best borgið með R-leið.Undirritaðir telja að umhverfisáhrif Þ-H leiðar séu það umfangsmikil að sú leið verði aldrei fær.”

 

Samþykkt með tveimur atkvæðum gegn einu.

 

Eiríkur lagði fram svohljóðandi bókun.

 

,,Ég harma þá niðurstöðu Skipulags-húsnæðis og hafnarnefndar að R-leið verði sett inn sem aðalskipulagstillaga. Það er sýnt að neikvæðir samfélagsþættir sem af henni hljótast vega þyngra en þeir jákvæðu og mun seint nást sátt um hana innan sveitar sem utan.

Ég vona að hreppsnefnd hafi það til hliðsjónar þegar ákvörðun verður tekin.””

 

Svona stendur þetta mál núna, hvað sem verður.

 

Vegagerð um Gufudalssveit er ekki einkamál einstaka aðila innan Reykhólahrepps og hún er heldur ekki einkamál Reykhólahrepps eða Vestfirðinga. Þess hljóta þeir sem fara með skipulagsvaldið að horfa til þegar ákvörðun er tekin.

 

Ég geri mér grein fyrir því að vegagerð um Teigskóg er ekki góður kostur fyrir margra hluta sakir, ekki frekar en aðrir leiðarkostir um Gufudalssveit. Engu að síður er það mitt mat að hún sé illskásti kosturinn og í rauninni eini kosturinn sem raunhæft er að fara ef málið á ekki enn að tefjast um fleiri ár eða áratugi.

 

Eiríkur Kristjánsson

DEILA