Garðfuglahelgi Fuglaverndar 25. – 28. janúar 2019

Starri.

Fréttatilkynning frá Fuglavernd:

Árleg garðfuglahelgi Fuglaverndar verður dagana 25. -28. janúar 2019.

Framkvæmd athugunarinnar er einföld. Það eina sem þátttakandi þarf að gera er að fylgjast með garði í einn klukkutíma einhvern þessara daga. Athugendur velja hvaða dag þeir fylgjast með garðfuglunum eftir veðri og aðstæðum. Þátttakendur skrá hjá sér hvaða fuglar koma í garðinn og þá er miðað við mesta fjölda af hverri tegund á meðan athugunin stendur yfir. Talningin miðar við þá fugla sem eru í garðinum en ekki þá sem fljúga yfir. Ekki má leggja saman. Þetta er til að forðast tvítalningar á sama fuglinum, sem ef til vill kemur á 15 mínútna fresti í garðinn. Þá er hann skráður sem 1 fugl ekki 4. Að lokinni athugun skal skrá niðurstöður rafrænt á vef Fuglaverndar​ www.fuglavernd.is

Ef fuglunum er ekki gefið reglulega þá er gott er að hefja undirbúning talningar nokkrum dögum áður með því að gefa daglega til að lokka að fugla. Misjafnt er hvaða fóður hentar hverri fuglategund. Epli eru vinsæl hjá mörgum fuglum og auðvelt að koma þeim fyrir með því að skera þau í tvennt eða stinga kjarnann úr þeim og festa á trjágrein.

Nánari upplýsingar um garðfugla og fóðrun þeirra er hægt að finna á vef Fuglaverndar, í Garðfuglabæklingi félagsins semkaupa má í vefverslun á ​www.fuglavernd.is​ sem og fóðurhús og fóður sem selt er til styrktar félaginu.

Upplýsingar um garðfuglahelgi er að finna á vef Fuglaverndar: https://fuglavernd.is/verkefnin/gardfuglar/gardfuglahelgi/

DEILA