Gallup: fylgi Miðflokksins hrynur í kjördæminu

Kjördæmakönnun Þjóðarpúlsins fyrir desember 2018.

RUv hefur birt greiningu á nýjasta þjóðarpúlsi Gallup eftir kjördæmum. Helstu tíðindin eru að fylgi Miðflokksins í kjördæminu hrynur frá því sem það var í alþingiskosningunum á síðasta ári. Þá fékk Miðflokkurinn 14,2% atkvæða og 2 þingmenn en fengu nú aðeins 4,9% atkvæða og engan þingmann.

Samfylkingin tekur stökk og mælist í könnuninni með 17% atkvæða en fékk 9,7% í síðustu þingkosningum. Fengi flokkurinn nú kjördæmakjörinn þingmann samkvæmt könnuninni en hefur nú jöfnunarþingsæti. Ekki er unnt að staðsetja jöfnunarþingmann kjördæmisins í Þjóðarpúlsinum en vissulega gæti það lent hjá Samfylkingunni miðað við könnunina.

Fylgi annarra flokka breytist ekki mikið frá kosningum eða innan við 3%. Sjálfstæðisflokkurinn myndi missa 2,8% fylgi og fengi 21,7% atkvæða. Framsóknarflokkurinn myndi bæta við sig 1,9% og fengi 20,3%. Vinstri grænir missa 1,5% og fara niður í 16,3%. Píratar bæta við sig 1,7% og fara upp í 8,5%. Viðreisn bætir lítilega við sig og einnig Flokkur fólksins.

Sjálfstæðisflokkurinn og Framsóknarflokkur fengu 2 þingmenn hvor og Vinstri grænir, Samfylking og Píratar fengju einn þingmann hver. Áttunda þingsæti kjördæmisins er svo jöfnunarsætið.

Fylgi flokkanna í kjördæminu er að nokkru frábrugðið því sem það er á landsvísu. Framsóknarflokkurinn er með 9% meira fylgi í kjördæminu og Vinstri grænir hafa 5% meira fylgi í kjördæminu. Píratar eru hins vegar með 4% minna fylgi í Norðvesturkjördæmi en á landsvísu og Viðreisn eru 8% lægri í kjördæminu.

Sjálfstæðisflokkur, Samfylking, Flokkur fólksins  og Miðflokkurinn eru í kjördæminu með fylgi sem er ekki fjarri því sem það er í heild.

DEILA