Framfaraspor stigið með fagráði eineltismála grunn- og framhaldsskóla

Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra.

Fréttatilkynning frá Menntamálaráðuneytinu:

Með nýjum verklagsreglum fagráðs eineltismála hefur orðið sú breyting að ráðið starfar nú bæði fyrir grunn- og framhaldsskóla.  Hlutverk fagráðsins er að veita skólasamfélaginu stuðning vegna eineltismála með almennri ráðgjöf, leiðbeiningum og upplýsingagjöf og geta nemendur, forráðamenn og starfsfólk grunn- og framhaldsskóla leitað eftir aðkomu þess ef ekki tekst að finna fullnægjandi lausn mála innan skólanna. Aukinheldur geta aðilar sem starfa með börnum og ungmennum í skóla-, frístunda- eða tómstundastarfi sem hefur stoð í grunnskólalögum leitað til ráðsins. Sömu aðilar geta jafnframt vísað máli til fagráðs vegna meints aðgerðaleysis skóla eða sveitarfélags.

 

„Það hefur sýnt sig hversu mikilvægu hlutverki fagráð eineltismála sinnir fyrir skólasamfélagið, bæði með ráðgjöf og við úrlausn erfiðra mála. Það er mikið framfaraspor að ráðið muni nú einnig liðsinna í málum er tengjast framhaldsskólunum,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

 

Mennta- og menningarmálaráðherra skipar fagráð eineltismála í grunn- og framhaldsskólum að fengnum tillögum frá Menntamálastofnun. Það er skipað þremur aðalmönnum og þremur varamönnum sem hafa þekkingu, menntun og reynslu sem nýtist við úrlausn mála. Í ráðinu nú sitja Sigríður Lára Haraldsdóttir, Bóas Valdórsson og Sigrún Garcia Thorarensen.Fagráðið starfar á ábyrgð mennta- og menningarmálaráðuneytis, en Menntamálastofnun annast umsýslu þess. 

 

Verklagsreglur fagráðs grunn- og framhaldsskóla eru unnar í samvinnu mennta- og menningarmálaráðuneytis og Menntamálastofnunar með aðkomu nýskipaðs fagráðs og koma þær í stað fyrri verklagsreglna frá 2016 um fagráð eineltismála í grunnskólum.

DEILA