Vinnustofa í heimildarmyndagerð

Leikstýra þessarar myndar mun kenna á námskeiði í Blábankanum.

Lumar þú á heimildamynd sem hefur beðið of lengi óklippt á harða disknum? Þá er námskeið tilvalið fyrir þig í Blábankanum Þingeyri í lok janúar.

Blábankinn, í samstarfi við Klapp, býður áhugasömum að taka þátt í fjögurra daga námskeiði í heimildamyndagerð sem stýrt er af þaulreyndum kvikmyndagerðarkonum frá Norður-Noregi. Þær munu bæði sýna eigin verk til að veita verkefnum innblástur auk þess sem þátttakendur öðlast innsýn í frásagnarlist, dramatúrgíu og heimildamyndaframleiðslu í gegnum vinnustofur. Síðast en ekki síst mun gefast tími til að setjast niður og ræða og vinna eigin verkefni undir leiðsögn reynds heimildamyndagerðarfólks.

Á námskeiðinu er pláss fyrir fimm þátttakendur. Á meðan þessu fjögurra daga námskeiði stendur munu nemendur og kennararnir finna leiðir til að draga áhorfendann að sögunni, ná fram nánd við sögupersónurnar og greina hvernig hægt er að koma söguþræðinum á framfæri með ólíkum frásagnaraðferðum. Námskeiðið verður blanda af vinnustofum og einstaklingstímum með kennara. Í lok námskeiðs er stefnt að því að hver og einn þátttakandi sé kominn með grófklippta útgáfu af myndinni sinni til að sýna kennurunum/leiðbeinendunum og öðrum þátttakendum.

Fyrir þá sem ekki hafa undir höndum kvikmyndaverkefni til að vinna í er boðið upp á tíu áheyrnarpláss fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með námskeiðinu, ásamt því að taka þátt í hópaumræðum og læra um heimildamyndagerð.

Ein kennaranna á námskeiðinu er Trude Ottersen en hún er leikstýra heimildarmyndar um selveiðimenn á heimskautaísnum sem verður sýnd á Þingeyri á sama tíma og námskeiðið stendur. Kynningu á myndinni má sjá hér.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA