Það var kátur fjölskyldufaðir sem heimsótti Íslenska getspá með vinningsmiðann í EuroJackpot frá síðasta föstudegi. Maðurinn var að versla inn jólagjafir í Kringlunni og ákvað að skella sér á miða í Happahúsinu og sér hann sko heldur betur ekki eftir því. Þessi frábæri miði sem var 10 raða sjálfval með Jóker, skilaði honum 2. vinningi upp á rúmlega 131 milljón króna og er þetta lang stærsti vinningur í EuroJackpot sem komið hefur til landsins frá upphafi.
Maðurinn var kominn aftur vestur þegar hann áttaði sig á því að hann væri orðinn milljónamæringur og þá var ekkert annað að gera en að drífa sig aftur í höfuðborgina. Enda miðinn allt of verðmætur til að dinglast í töskunni. Vinningurinn kemur sér einstaklega vel hjá þeim hjónum sem nýlega eignuðust sitt annað barn, segir að lokum í tilkynningu frá íslenskri getspá.