Verðkönnun ASÍ á jólamat: Mestur verðmunur á kjöti og konfekti

Mynd : RUV

ASÍ gerði verðkönnun á jólamat og segir í fréttatilkynningu að mestur verðmundur sé á kjöti og konfekti:

Mikill verðmunur var á jólamat milli verslana í verðkönnun ASÍ sem framkvæmd var á
mánudaginn síðastliðinn. Mestur var verðmunurinn á algengum jólamat eins og kjöti, gosi,
jólaöli og konfekti og er því ljóst að neytendur geta sparað sér töluverðar fjárhæðir þegar
keypt er í jólamatinn. Allt að 1.400 kr. verðmunur var á kílóverðinu af hangilæri sem gerir
4.200 kr. verðmun ef 3kg hangilæri er keypt og 890 kr. verðmunur var á kílói af Nóa konfekti.

4.200 kr. verðmunur á hangilæri
Mestur verðmunur var á léttreyktum lambahrygg frá Kea eða 73% verðmunur á kílóinu.
Lægsta verðið var í Bónus, 1.679 kr en það hæsta í Hagkaup, 2.899 kr sem gerir 1.220 króna verðmun. Þá var 54% verðmunur á kílói af úrbeinuðu Fjalla hangilæri eða 1.400 kr.
verðmunur. Lægsta verðið var í Bónus, 2.598 kr. en það hæsta í Iceland 3.998 krónur. Ef við gefum okkur að keypt sé 3 kg hangilæri gerir það 4.200 króna verðmun.
Mikill verðmunur var á gosi eða upp í 134% verðmunur á hálfs líters dós af Hátíðarblöndu frá Vífilfelli. Lægsta verðið mátti finna í Bónus, 85 kr. en það hæsta, 199 kr. í Iceland en það gerir 114 kr. eða 134% verðmun. Þá var 58% verðmunur á 2l flösku af Pepsi Max, hæst var verðið í Hagkaup 339 kr. en lægst, 215 kr. í Bónus.
Verðmunur á konfekti var einnig mikill. Mestur var hann 135% eða 420 kr. á 300 gr. After eight kassa. Lægsta verðið, 319 kr. mátti finna í Fjarðarkaup en það hæsta, 749 kr. í Iceland. Mestur verðmunur í krónum talið var á kílói af Nóa konfekti, lægsta verðið, 2.999 mátti finna í Krónunni en það hæsta, 3.899 í Hagkaup sem gerir 30% eða 890 kr. verðmun.

 

Segir svo að hægt sé að spara háar fjárhæðir og tekið dæmi af tveimur jólakörfum, annarri í Bónus og hinni Hagkaup þar sem verðmunur er um 50%.

DEILA