Veggjöld í vestfirsku jarðgöngunum?

Fram kom í fréttum beggja sjónvarpsstöðvanna í gærkvöldi að  stjórnarmeirihlutinn væri að undirbúa tillögu um fjármögnum vegaframkvæmda með veggjöldum. Yrðu þau tekin upp á öllum stofnbrautum út frá höfuðborgarsvæðinu svo og í öllum jarðgöngum landsins. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgönguráðherra sagði í viðtali við RÚV að spurningin væri um það hvort menn hefðu nú kjark og þor til þess að taka stóra stökkið í samgöngumálum með því að fjármagna stórfelld áform með veggjöldum.

Yrðu þessar hugmyndir að veruleika yrði tekið upp veggjald í Vestfjarðagöngum og Bolungavíkurgöngum. Ein þeirra framkvæmda sem nefnd var í fréttunum að fjármögnuð yrði með þessum hætti er nýr vegur yfir Dynjandisheiði.

Halla Signý Kristjánsdóttir, alþm sagðist ekki kannast við að þessar tillögur væru í burðarliðnum. Hún hefði heyrt hugmyndir um veggjöld og vissulega væri ein þeirra um veggjöld í öllum jarðgöngum, en aðallega væri ætlað að afla fjár til stórframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu.  Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu hafði heldur ekki heyrt þessar hugmyndir. Hún sagði að Vestfjarðastofa hefði miðað ályktanir sínar og álit á hugmyndum um veggjöld út frá höfuðborgarsvæðinu , en ekki hefðu tillögur um veggjöld í jarðgöngum verið kynntar Vestfjarðastofu.

DEILA