Utanbæjarfólk á fundinum

Bryndís Sigurðardóttir, sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps.

„… þangað hafi mætt utanbæjarmenn annars staðar að af Vestfjörðum ..“ þannig orðar sveitarstjóri Reykhólahrepps mætingu Vestfirðinga á fund Reykhólahrepps um vegamál fjórðungsins. Fundurinn var að sönnu auglýstur sem íbúafundur hreppsins en málefnið fjarri því að vera innansveitarmál Reykhólahrepps. Þvert á móti, fundarefnið var áratuga baráttumál allra Vestfirðinga, baráttumál sem hingað til hefur verið borið áfram af samhentum íbúum Vestfjarða sem voru loksins farnir að eygja mannsæmandi tengingu við höfuðborgina. „En af hverju liggur okkur svona á að komast til Reykjavíkur?“ var spurning sem forstjóri stærsta fyrirtækisins á Reykhólum varpaði fram og hvatti fundargesti til að „slaka bara á“ ! Einhverra hluta vegna hafði sá ágæti forstjóri alls ekki áttað sig á að þvælingur Tálknfirðinga og annara íbúa á norðan og sunnanverðum Vestfjörðum var hreint ekki til að komast sem hraðast í pylsuna í sjoppunni á Reykhólum heldur til að sækja þjónustu til höfuðborgarinnar, koma frá okkur framleiðsluvörunum okkar, draga til okkar aðföng og komast heim aftur.

Það væri til að æra óstöðugan að rekja sögu Vestfjarðarvegar og þeim tilraunum sem hafa verið gerðar til að færa hann til nútímans en það vegstæði sem Reykhólahreppur vil setja á dagskrá er ekki ný hugmynd. Þetta vegstæði þótti svo fráleitt í matskýrslunni sem gerð var árið 2005 að það var fellt út og ekki rætt frekar, þetta kemur fram í skýrslu Lilju G. Karlsdóttur sem kom út á dögunum. Veglínan (A1) kom aftur til umræðu síðar og í áliti Skipulagsstofnunar sem kom út í mars 2017 eru eftirfarandi athugasemdir:

 • Að mati Skipulagstofnunar mun leið A1 hafa verulega neikvæð áhrif á landslag þegar tekið er mið af raski í austanverðum Þorskafirði yfir hraun og óraskaða fjöru og þverun yfir mynni fjarðarins að Skálanesi. Þverunin sjálf, sem er rúmlega þriggja km löng mun hafa mikil óafturkræf sjónræn áhrif þar sem hún sker hafflötinn í tvennt og aðskilur firðina þrjá frá Breiðafirði. Útsýni frá landi mun breytast og manngerð áhrif verða meira áberandi.
 • Mat Vegagerðarinnar er að leið A1 hafi talsvert neikvæð áhrif á fornleifar. Óvissa ríki um staðsetningu friðlýstra dysja í landi Hlíðar á leið A1, en þær hafi ekki fundist við vettvangskönnun.
 • Leiðir A1 og I muni valda mestri skerðingu á túnum, eða rúmlega 6 ha.
 • Fram kemur í matsskýrslu að eitt friðlýst æðarvarp liggi nálægt mögulegu framkvæmdasvæði Vestfjarðavegar, á leiðum A1 og I, þ.e. æðarvarp við Stað og Árbæ. Það sé eitt af stærstu vörpum á landinu, með um 4.000 hreiður sem gefi um 70 kg af dún árlega. Vottur af æðarvarpi sé á Hallsteinsnesi og á eyjum og skerjum við mynni Djúpafjarðar.
 • Leiðir A1 og I munu raska nálægt 20 ha votlendis sem nýtur verndar samkvæmt 61. gr. laga um náttúruvernd, en í allt raska leiðir A1 og I nálægt 30 ha votlendis. Skipulagsstofnun telur að leiðir A1 og I muni hafa veruleg neikvæð áhrif á verndað votlendi. Aðrar framlagðar veglínur raska mun minna votlendi. Í ljósi þess að allar veglínurnar fimm uppfylla umferðaröryggiskröfur telur Skipulagsstofnun ekki hafa verið sýnt fram á brýna nauðsyn á að leggja veginn samkvæmt leið A1 eða I sem hefði í för með sér mest rask á þessu verndaða vistkerfi samkvæmt 61. gr. náttúruverndarlaga.
 • Allar framlagðar veglínur munu raska fornleifum varanlega. Þar eru áhrif leiðar D2 talin minnst.

Þverun Þorskarfjarðar, hvort sem við tölum um R eða A3 eða A1 hefur ekki farið í gegnum umhverfismat og því hlýtur það að orka tvímælis að halda því fram eins og Lilja gerir í sinni skýrslu að hún hafi engin eða óveruleg áhrif á umhverfið. Ekki síst þegar álit Skipulagsstofnunar frá 2017 er lesið. Að halda því fram að þessi veglína muni ekki þurfa að fara í umhverfismat er í besta falli bjartsýni, í versta falli blekking.

 

Hagkvæm, fyrir hverja?

Í kafla 1.1 í skýrslu Lilju segir „Valkostagreiningunni var einkum ætlað að meta kosti og galla Reykhólaleiðar samkvæmt fyrirliggjandi upplýsingum og í samræmi við lög um samgönguáætlun og bera þá leið saman við Teigskógsleiðir ÞH og Gangnaleið D2“. Og í sama kafla kemur fram að valkostagreining felist í að meta verkefni út frá fjölbreyttum þáttum, eins og til dæmis tæknilegum, umhverfislegum, hagrænum og félagslegum þáttum. Í kafla 1.2. áréttar Lilja að í lögum um samgönguáætlun (nr. 33/2008) stendur að við gerð hennar skuli byggja á þeim meginmarkmiðum að samgöngur skuli:

 • Vera greiðar
 • Vera hagkvæmar
 • Vera öruggar
 • Vera umhverfislega sjálfbærar
 • Stuðla að jákvæðri byggðaþróun

Og þó skýrslan sé unnin frá sjónarhóli Reykhólahrepps eingöngu og allar mælingar og viðmiðanir við hann, er langt frá að niðurstöður byggðar á því þrönga viðmiði uppfylli þessi meginmarkmið né skili bestu niðurstöðu í valkostagreiningu.

Tæknilega er R leiðin óútfærð og að því er virðist ekki til vindmælingar fyrir svo háa brú á þessum stað né hafa fyrirhugaðar undirstöður undir brúna verið rannsakaðar.

Umhverfisáhrif R leiðar liggja ekki fyrir, hvorki fyrir brúna, veglínu að henni né endurbætur á Reykhólavegi, það liggur hins vegar fyrir að D2 leiðin hefur langminnstu umhverfisáhrifin af öllum hugsanlegum vegstæðum, einhverra hluta vegna fær þó sú leið alltaf verstu einkunn í skýrslu Lilju. Sömuleiðis er blákalt metur hún að R leiðin (og A3) hafi óveruleg áhrif á til dæmis fuglalíf, gróður, lífríki straumvatna og jarðfræði.

Hagræn áhrif R leiðarinnar er öllum öðrum en íbúum Reykhólasveitar óhagkvæmari og getur því aldrei fengið annað en falleinkunn ef hagsmunir allra eru teknir með.

Félagsleg áhrif R leiðarinnar eru hörmuleg fyrir þá bændur sem sitja jarðir sem fara undir veg að brúnni yfir Þorskafjörð, sömuleiðis er þessi veglína væntanlega banabiti fyrir Bjarkarlund svo tekin séu dæmi af þröngu sjónarhorni íbúa Reykhólasveitar. Hugsanlega seljast fleiri súkkulaðistykki á Reykhólum, það er þó ekki víst.

 

Lokaorð

Ef svo fer sem horfir og sveitarstjóri Reykhólahrepps reynist sannspár um að niðurstaða hreppsnefndar Reykhólahrepps muni verða sú að gefa ekki út framkvæmdaleyfi fyrir ÞH leiðinni og hleypa nágrönnum sínum á kjálkanum eins fljótt og auðið er á öruggum vegum suður fyrir sveit sína eru engar líkur á að um vegbætur verði að ræða á yfirstandandi kjörtímabili. Hreppurinn þarf að fara í deiliskipulags og aðalskipulagsvinnu, Vegagerðin þarf að hanna og samþykkja veglínuna, fara þarf í eignarnám á því landi sem fer undir veginn, gera þarf umhverfismat og að loknu framkvæmdaleyfi takast á við kærur umhverfissamtaka og landeigenda.

Augljóst er hverjir tapa, vandséðara er hver græðir.

 

Bryndís Sigurðardóttir

Sveitarstjóri Tálknafjarðarhrepps

DEILA