Tekist á um veggjöld

Greinilegt er að tekist er á um veggjöld innan stjórnarliðsins. Síðustu fréttir í gærkvöldi voru að niðurstaða lægi ekki fyrir.  Um langt árabil hefur hið opinbera sett of lítið fé til samgöngumála miðað við þörfina á uppbyggingu samgöngukerfisins, sem er einkum vegakerfið. Til viðbótar brýnum verkefnum sem lengi hafa beðið fjármagns standa stjórnvöld frammi fyrir stórfelldum framkvæmdum á höfuðborgarsvæðsins sem þörf er á vegna mikillar umferðar. Það er alveg ný tegund af vegaframkvæmdum, þar sem fyrir eru góðir vegir en umferðarmagnið eða bílafjöldinn hefið vaxið gríðarlega á ákveðnum leiðum og sums staðar á ákveðnum tímum dags.

Kostnaður við höfuðborgarframkvæmdirnar eru stærsti hlutinn af þeim vanda sem stjórnvöld standa frammi fyrir. Það eru leiðirnar til og frá borginni, einkum breikkun, og innan hennar. Miðað við svipuð framlög til vegamála á næstu árum og verið hafa síðan 1990 mun það taka áratugi að safna fé fyrir þeim framkvæmdum. Því hafa komið fram hugmyndir um að fjármagna þær sérstaklega með veggjöldum. Það þýðir að umferðin sem myndi nota hin nýju mannvirki myndu borgar fyrir þær á svipaða hátt og umferðin greiddi fyrir Hvalfjarðargöngin. Það er eiginlega þvinguð niðurstaða að taka upp veggjöld til þess að fjármagna stórframkvæmdir eins og Sundabraut eða setja Miklubraut í stokk. Það er meira álitamál hvort breikkun þjóðveganna út úr borginni eigi að kosta með veggjöldum.

Rökin fyrir þessari leið eru einkum að vegfarendur muni njóta vegabótanna í minni ferðatíma og þar með spara sér raunverulega peninga. Annar áþreifanlegur kostur væri verulegur sparnaður vegna færri slysa.  Stundum hefðu vegfarendur val og gætu áfram farið gömlu leiðina en stundum væri það val ekki gerlegt.   Eitt sem þarf að athuga er að umferðin á helstu umferðarþungu vegum landsins er vegna allra landsmanna, á hverjum degi eru hlutur íbúa landsbyggðarinnar verulegur í umferðinni í höfuðborginni. Gjaldtakan verður því ekki eins búsetubundin og ætla mætti. Þriðju rökin fyrir  veggjöldum á fjölförnustu leiðunum er að það þarf að stýra umferðinni inn og út úr miðborginni og gjaldtaka er góð leið til þess. Það eru mörg dæmi um slíka umferðarstýringu erlendis.

Það er stór biti að kyngja fyrir marga að fallast á veggjöld á höfuðborgarsvæðinu. Því virðist sem sett sé fram sú tillaga að taka upp veggjöld um allt land á þann veg að innheimta gjald fyrir akstur um jarðgöng til þess að fá þá til þess að samþykkja veggjöldin. Það sem flækir málið ennfrekar er að ráðamenn sem hafa síðustu daga hafa lagt til að ráðstafa tekjum af veggjöldum að einhverju leyti óháð því hver gjöldin falla til.

Hér þarf að halda gjaldtökuhugmyndunum við grunnatriðið, sem er að afla tekna af umferð til þess að greiða samgöngumannvirkið sem verið er að aka um.

Það er algerlega fráleit hugmynd að skattleggja umferð um jarðgöng sem þegar eru greidd og ætla að nota andvirðið til framkvæmda einhvers staðar annars staðar. Samkvæmt þessum tillögum yrði lagt gjald á umferð um Vestfjarðagöng, Bolungavíkurgöng, Héðinsfjarðargöng, Múlagöng, Norðfjarðargöng, Reyðarfjarðagöng og göngin austan Hornafjarðar.  Slíkt er fráleitt. Enn fráleitara er að leggja aftur gjald á akstur um Hvalfjarðargöngin. Notendur hafa þegar greitt þau göng með veggjöldum. Hvernig í veröldinni ætla stjórnvöld að réttlæta það að láta vegfarendur greiða meira en kostnaðinn?

Þesis jarðgangagjaldheimta flækir málið og kannski vinnur gegn aðalatriðinu, sem er að það þarf að afla meira fjár til þess að geta framkvæmt á næstu árum það sem þarf nauðsynlega að gera. Veggjöld eða notendagjöld eru ekki aðeins raunhæf leið heldur líka eina sjáanlega úrræðið sem unnt er að grípa til áður en í mikið óefni verður komið.

-k

DEILA