Starfshópur um endurskoðun kosningalaga

Forseti Alþingis Steingrímur J. Sigfússon.

Í fréttatilkynningu frá skrifstofu Alþingis segir að hinn 24. október 2018 hafi forseti Alþingis skipað starfshóp um endurskoðun kosningalaga til að fara yfir tillögur vinnuhóps um endurskoðun kosningalaga ásamt frumvarpi sem lagt var fram á Alþingi 5. september 2016, með tilliti til hagkvæmni og skilvirkni. „Jafnhliða skal starfshópurinn kanna kosti þess að setja heildarlöggjöf um framkvæmd allra almennra kosninga, er taki til kosninga til Alþingis, kosninga til sveitarstjórna, framboðs og kjörs forseta Íslands og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Loks skal starfshópurinn skoða eftir því sem tími og aðstæður leyfa kosti rafrænnar kjörskrár. Miðað er við að starfshópurinn skili tillögum sínum í formi lagafrumvarps 1. desember 2019.“

Í starfshópnum sitja Bryndís Hlöðversdóttir, lögfræðingur og ríkissáttasemjari, sem jafnframt er formaður hópsins, Þórir Haraldsson, lögfræðingur, tilnefndur af landskjörstjórn, Þorvaldur Heiðar Þorsteinsson, lögfræðingur, tilnefndur af dómsmálaráðuneyti, Magnús Karel Hannesson, tilnefndur af Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Ástríður Jóhannesdóttir, lögfræðingur og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs Þjóðskrár Íslands, tilnefnd af Þjóðskrá Íslands.

Starfshópurinn leggur áherslu á greiða upplýsingagjöf um vinnu hans og gott samráðsferli. Þannig er gert ráð fyrir að starfshópurinn skuli við undirbúning tillagna sinna eiga samráð við fulltrúa þingflokka um endurskoðun kosningalaga. Þessu til viðbótar verður boðið upp á samráðsferli í upphafi og lok vinnunnar auk samráðs við helstu hagsmunaaðila.

Til að tryggja breiða aðkomu að endurskoðun kosningalaga gefst kostur á að koma athugasemdum á framfæri um efnið nú á fyrstu stigum vinnunnar. Einkum er þar vísað til þeirra hugmynda sem nú þegar liggja fyrir og hópnum er ætlað að leggja til grundvallar í sínum störfum, þ.e. tillögur vinnuhóps um endurskoðun kosningalaga frá 2016, sem finna má á vef Alþingis.

Þá er sérstaklega óskað eftir athugasemdum við þá hugmynd að sett verði heildarlöggjöf um framkvæmd kosninga, er taki til kosninga til Alþingis, kosninga til sveitarstjórna, framboðs og kjörs forseta Íslands og framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslna. Á síðari stigum verður óskað eftir athugasemdum við frumvarpsdrög starfshópsins áður en tillögum hópsins verður skilað til Alþingis.

Athugasemdir skulu sendar til lagaskrifstofu Alþingis á netfangið kosningalog@althingi.is fyrir 22. janúar 2019. Fylgjast má með störfum starfshópsins á sérstöku vefsvæði: https://www.althingi.is/thingnefndir/adrar-nefndir/kosningalog/.

DEILA