Samþykkt deiliskipulag fyrir Sæborg í Aðalvík

Uppdráttur af Sæborg í Aðalvík.

Bæjarstjórn Ísafjarðarbæjar hefur samþykkt breytingar á áður auglýstum uppdrætti og greinargerð vegna deiliskipulags jarðarinnar Sæborgar í Aðalvík. Deiliskipulagið gerir ráð fyrir einu frístundahúsi til viðbótar við þau sem fyrir standa, en aðalskipulagið gerir ráð fyrir þremur til viðbótar.

Í greinargerð með tillögunni segir:

Svæðið er innan Hornstrandafriðlands. Aðalskipulagið gerir ráð fyrir allt að þremur nýjum frístundahúsum á svæði F41 til viðbótar við þau sem þegar standa.
Jörðin tilheyrir þéttbýlinu eða vísi að þéttbýli á Sæbóli og Görðum en hún var stofnuð út úr jörð Garða 1936. Landamerkin sem sýnd eru á uppdrætti eru byggð á afsali frá 1936 og mælingu sem gerð var á jörðinni 1976. Skipulagsmörkin eru nokkuð innan þeirra landamerkja. Í vestur Aðalvík standa einnig hús í landi Þverdals og á kirkjustaðnum Stað.

Þá segir að þessi breyting á deiliskipulagi sé í samræmi við aðalskipulag þar sem er lögð megináhersla á að viðhalda ásýnd svæðisins norðan Djúps eins og það var þegar það var í byggð. Um svæði F41 segir einnig í aðalskipulaginu:
Endurbyggja má öll íbúðarhús og þjónustuhús sem búið var í eftir 1908. Hús byggð eftir 1965 teljast nýbyggingar.
Ekkert verður byggt á jörðum sem eru í eigu ríkisins og/eða Ísafjarðarbæjar, sbr. töflu 7.12.

Byggingarskilmálar fyrir frístundahús eru auk ákvæða í reglugerð:
Frístundahús má vera með allt að 80 m2 grunnfleti, auk anddyris/bíslags með allt að 16 m2
grunnfleti og nýtanlegt ris. Heildar grunnflötur má því vera allt að 96 m2 og heildarstærð 135 m2.
Mesta mænishæð frá gólfplötu er 5,7 metrar og mesta mænishæð frá jörðu má vera 6 metrar.
Þakform hvers húss skal vera mænisþak með 10-45° þakhalla en á anddyri/bíslagi skal þakhalli vera 10-25°. Stefna er frjáls.
Gluggar skulu almennt vera með láréttum og lóðréttum póstum, fjórar til sex rúður. Minni gluggar mega þó vera tvær rúður. Þakgluggar mega vera með eina rúðu.
Byggt skal úr timbri. Þak skal vera bárujárnsklætt og veggir með timbur- eða bárujárnsklæðningu.

DEILA