Reykhólahreppur: hætt við upplýsingatakmörkun

Ingimar Ingimarsson, oddviti.

Í ágústmánuði ákvað starfandi sveitarstjóri, Ingimar Ingimarsson oddviti sveitarstjórnar , að takmarka aðgengi að upplýsingum og gögnum frá sveitarfélaginu á þann hátt að þeir sem settu fram óskir urðu að koma á skrifstofu sveitarfélagsins og undirrita þar beiðni um gögn.

Reglunni var svo lýst í svari frá skrifstofunni :

„Vegna nýrra persónuverndarlaga er okkur var ráðlagt að fara hið ýtrasta eftir upplýsingalögum um afhendingu gagna. Þess vegna hefur verið tekin upp sú regla að þeir sem óska eftir gögnum mæti á skrifstofu Reykhólahrepps með persónuskilríki og fylli út til þess gert eyðublað og skili inn.“

Í svari fyrirspurn blaðsins Vestfirðir kom fram að starfandi sveitarstjóri hafði sett þessa reglu og hann svaraði því til að hann hefði fullt leyfi til þess að setja slíkar reglur. Athugasemdum svaraði hann á þennan veg:

„Þessi framkvæmd felur ekki í sér neina neitun á afhendingu gagna, enda er farið yfir umsóknir og gögnin afhend ef við getum. Ef fjölmiðlar vilja ekki senda fólk til okkar á skrifstofuna, þá er það ekki okkar mál.“

Erindi blaðsins um tiltekin gögn var synjað. Ákveðið var að skjóta málinu til Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins og hefur borist svohljóðandi svar þaðan:

 „Samkvæmt upplýsingum frá sveitarstjóra Reykhólahrepps er ekki starfað eftir hinu tilgreinda vinnulagi lengur hjá hreppnum. Það ætti því ekki að vera neitt því til fyrirstöðu að fá upplýsingar og gögn hjá sveitarfélaginu eftir venjulegum leiðum, enda séu þau ekki undanþegin upplýsingarétti skv. upplýsingalögum, nr. 140/2012.“

Núverandi sveitarstjóri er Tryggvi Harðarson.

 

 

DEILA