Raunvaxtakjör ríkissjóðs aðeins 1,5%

Ríkissjóður gaf út nýjan verðtryggðan skuldabréfaflokk í lok nóvember sl., RIKS 26, og ber hann 1,5% vexti. Þetta eru hagstæðustu raunvaxtakjör sem ríkissjóður hefur nokkru sinni fengið á innlendri lántöku. Fjármálaráðuenytið segir í frétt á vefsíðu sinni að þessi niðurstaða endurspegli traust á ríkissjóði og grundvallist það á góðum árangri í ríkisfjármálum og festu í stjórn opinberra fjármála.

Lánsfjárþörf ríkissjóðs hefur minnkað til muna síðustu misseri og verulega hefur dregið úr útgáfu ríkisbréfa. Á tímabili fjármálaáætlunar er gert ráð fyrir að nettó útgáfa verði að jafnaði neikvæð um 30-40 ma.kr. á ári. Bætt lánskjör þýða að óbreyttu lægri vaxtakostnað ríkissjóðs af teknum lánum sem aftur hefur jákvæð áhrif á afkomu ríkissjóðs. Síðustu verðtryggðu flokkar ríkisbréfa sem ríkissjóður gaf út á árunum 2010 – 2012 bera 3% – 3,8% vexti.

Þá hefur eftirspurn eftir verðtryggðum skuldabréfum farið vaxandi, fjárfestar leita í auknum mæli í verðtryggð bréf, eins og um þessar mundir, þegar væntingar eru um vaxandi verðbólgu og mikil óvissa er um hvernig verðbólgan gæti þróast.

 

DEILA