Rauði krossinn: Opið hús á aðfangadagskvöld

Mynd af starfi Rauða krossins á Ísafirði.

Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna mikilvæg störf um jólin og eru með opið hús á aðfangadagskvöld

 

Sjálfboðaliðar Rauða krossins um allt land leggja sig fram um að vinna mannúðarstörf þar sem sjónum er einkum beint að þeim sem minna mega sín og eru berskjaldaðir. Sjálfboðaliðarnir vinna störf sín af alúð og trúmennsku og eru mannúð og hlutleysi höfð að leiðarljósi.

 

Þó Ísland sé skilgreint sem eitt af ríkustu löndum heims þá eru alltaf einhverir sem eiga erfitt með að ná endum saman. Fólk getur lent í tímabundnum erfiðleikum vegna veikinda, atvinnumissis eða annars vanda og á þá rétt á lágmarks framfærslu samkvæmt lögum um félagsþjónustu sveitarfélaga. Oftast dugir sú aðstoð í tímabundnum erfiðleikum en jól og aðrir hátíðisdagar geta reynst fólki erfiðir, einkum barnafjölskyldum. Mikilvægt er að fólk geti gert sér dagamun á hátíðisdögum, farið í betri fötin sín, borðað góðan mat og gefið hvert öðru gjafir.

 

Rauði krossinn hefur undanfarin ár fengið gjafir  og aðstoð  frá ýmsum aðilum og sjálfboðaliðum og hefur það komið sér. Þess vegna hefur Rauði krossinn um árabil getað veitt aðstoð í formi fataúthlutunar, matar- og fjárhagsaðstoðar  til einstaklinga og fjölskyldna.

 

Hjálpið Rauða krossinum að hjálpa öðrum

Rauða kross deildir á norðanverðu Vestfjörðum eru  í samvinnu um að taka á móti umsóknum og úthluta til  þeirra sem  á þurfa að halda.  Stofnaður hefur verið sérstakur sjóður sem veitt er úr en takmarkað fjármagn er til ráðstöfunar og því er leitað eftir styrkjum frá fyrirtækjum, félögum og einstaklingum sem gætu látið fé af hendi.  Reikningsnúmer sjóðsins er  174-05-401270 kt. 6207802789

Umsóknir í sjóðinn er hægt að senda á netfangið bryndis@redcross.is eða hafa samband í síma 864-6754

 

Opið hús á aðfangadagskvöld

Rauði krossinn er bakhjarl geðræktarmiðstöðvarinnar Vesturafls og verða sjálfboðaliðar Rauða krossins  með opið hús í miðstöðinni á Ísafirði á aðfangadagskvöld fyrir þá sem eru einir og vilja fá félagsskap og veita öðrum félagsskap.  Boðið verður upp á hátíðarmat og jólapakka og sjálfboðaliðar  sjá um að skapa notalega kvöldstund.  Hægt er að skrá sig og fá nánari upplýsingar hjá Vesturafli í síma 456-4406.

 

DEILA