Persónuafsláttur og skattleysismörk hækka um 4,7%

Persónuafsláttur hækkar um sem nemur hækkun vísitölu neysluverðs á árinu á undan. Hækkunin 2018 er 3,7%. Ákveðið var að hækkun persónuafsláttar yrði 1% unfram það eða 4,7% og verður persónuafsláttur einstaklinga 677.358 kr. fyrir árið 2019, eða 56.447 kr. á mánuði. Árlegur persónuafsláttur hækkar samkvæmt því um 30.619 kr. milli áranna 2018 og 2019, eða um 2.552 kr. á mánuði.
Skattleysismörk tekjuskatts og útsvars verða samkvæmt því 159.174 kr. á mánuði að teknu tilliti til 4% lögbundinnar iðgjaldsgreiðslu launþega í lífeyrissjóð samanborið við 151.978 kr. á mánuði árið 2018. Hækkun skattleysismarka milli ára nemur 4,7%.

Þegar tekjur ná skattleysismörkum byrjar launþegi að greiða útsvar til sveitarfélags síns. Launþeginn byrjar hins vegar ekki að greiða tekjuskatt til ríkisins fyrr en tekjur ná 261.329 kr. á mánuði árið 2019, samanborið við 249.514 kr. á mánuði árið 2018.

Skatthlutföll tekjuskatts til ríkisins eru óbreytt frá fyrra ári, 22,50% í neðra þrepi, og 31,8% í efra þrepi.

Meðalútsvar verður samkvæmt fyrirliggjandi ákvörðunum sveitarfélaga óbreytt milli ára, þ.e. 14,44%. Við staðgreiðslu ber launagreiðendum að miða við meðalútsvarshlutfallið.
Staðgreiðsluhlutfall ársins 2019 í heild, þ.e. samanlagt hlutfall tekjuskatts og meðalútsvars, verður því áfram 36,94% á tekjur í neðra þrepi og 46,24% á tekjur í efra þrepi.

DEILA