ÖBI: fullyrðingar um fjölgun öryrkja eru rangar

Fjöldi 75% öryrkja.

Öryrkjabandalaið segir í fréttatilkynningu að fullyrðingarstjórnmálamanna um mikla fjölgun öryrkja séu ekki réttar. Eru gerðar athugasemdir við staðhæfingar tveggja ráðherra Bjarna Benediktssonar, fjármálaráðherra og Ásmundar Einars Daðasonar, félagsmálaráðherra auk Páls Magnússonar, alþm. Annars vegar er fullyrt að örorkuþegum fjölgi hrðar en nemur líffræðilegri fjölgun og hins vegar að 1.200 – 18.000 manns fái árlega mat upp á 75% örorku.

ÖBI vitnar til mannfjöldatalna frá 2009 til 2018 og til talna Tryggingarstofnunar ríkisins um fjölda þeirra sem eru með 75% örorkumat.

Segir ÖBI að öryrkjum hafi fjölgað um 3000 manns á sama tíma og landsmönnum fjölgaði um 29 þúsund manns. Þá sé nýgengið fjarri því að vera 1.200 til 1.800 á ári heldur hafi fjölgunin mest orðið árið 2016 en þá aðeins 700. Hin árin hafi fjölgunin verði mun minni. Skýringarinnar er að leita í því að margir fá tímabundna örorku meta og þeir hverfa þá aftur af skrá að þeim tíma liðnum sem mat þeirra stóð til.

Örorkubandalagið  vísar einnig til þess að fjölgun starfa hafi verið mikil síðustu ár og langtum meiri en fjölgun öryrkja. Til dæmis hafi störfum fjölgað um 5000 á síðasta ári frá 2017 en öryrkjum hafi aðeins fjölgað um 87.

Í lokin er velt upp spurningunni af hverju rnagar tölur eru á floti í umræðu stjórnmálamanna:

Hver er tilgangurinn?

En hvers vegna eru fulltrúar stjórnvalda að fara svona með tölur? Af hverju ekki að byggja umræðuna á veruleikanum í stað þess að skálda upp eitthvað sem ekki stenst skoðun? Er verið að blása upp fjölgun örorkulífeyrisþega sem einhvers konar rökstuðning fyrir því að taka upp svokallað starfsgetumat. Upptaka starfsgetumats er nú gjarnan kallað „endurskoðun almannatryggingakerfisins“ og á sér heitastan stuðningsmann í Samtökum atvinnulífsins en aðrir, til dæmis Alþýðusamband Íslands, hafa blessunarlega horfið frá þessari hugmynd, enda hefur hún reynst vera flopp í framkvæmd í öðrum löndum.

Af einhverjum ástæðum eru stjórnvöld pikkföst í því að halda aftur af kjarabótum og mannréttindum öryrkja nema í skiptum fyrir starfsgetumat. Nú sjá það auðvitað allir að endurskoðun almannatryggingakerfisins (starfsgetumat eða hvað sem er annað) er langt í frá forsenda fyrir almennum kjarabótum örorkulífeyrisþega eða afnámi óréttlætis á borð við krónu-á-móti-krónu skerðingar, svo því sé haldið til haga.

Hvað sem stjórnvöld vilja um almannatryggingakerfið og hvað sem ÖBÍ leggur til í þeim efnum, þá er mikilvægt að öll umræða og umfjöllun byggi á staðreyndum. Það er ekki í lagi blása út tölur í ræðustól Alþingis, eða láta KPMG reikna út að árið 2050 verði öryrkjar orðnir fleiri en allir Íslendingar samanlagt!

Í því samhengi skulum við hafa í huga að þessi misserin vex enginn þjóðfélagshópur hraðar og meira en pólitískir aðstoðarmenn!

Við höfum staðreyndirnar og þær eru skýrar. Látum umræðuna og aðgerðirnar byggja á þeim. Svo skulum við bara leyfa skáldskapnum að njóta sín í jólabókaflóðinu.

 

DEILA