Ný bók frá Vestfirska forlaginu:100 Vestfirskar gamansögur 2. bók.

Enn fer Vestfirska forlagið á flot með gamansögur úr hinum mikla þjóðsagnabanka af Vestfirðingum, en gamansemin er einmitt lífselexír margra þeirra. Sagnirnar eru hluti af arfi kynslóðanna á Vestfjörðum úr dagsins önn. Margar hafa þær sést áður í bókunum að vestan og víðar. Flestar eru að einhverju leyti sannar og enn aðrar heilagur sannleikur eins og kunnugt er. Sögurnar lýsa orðheppni Vestfirðinga og hæfileika þeirra til að fanga augnablikið. Hvað sem um þær má segja að öðru leyti, eru þær að ýmsu leyti góðar mannlýsingar. Eins og fyrri daginn eru ónafngreindir heimildamenn að baki mörgum sagnanna. Vonandi er þessi vestfirska gamansemi græskulaus. En öllu gamni fylgir náttúrlega nokkur alvara!

Hér fylgir sýnishorn úr bókinni frá gömlu kynslóðinni:

 

Tungumálakunnátta

Anton heitinn Ingibjartsson, Toni Ingibjartar, var þekktur borgari á Ísafirði. Toni var vænn maður, fyndinn, orðheppinn og skemmtilegur. Toni var lengi kyndari á gömlu kolatogurunum á Ísafirði og einnig var hann á nýsköpunartogurum.

   Eitt sinn þegar Toni var á togaranum Skutli og var að koma úr siglingu til Englands var hann að segja félögum sínum frá mannlífinu í Fleetwood:

   Mikil menningarþjóð Bretarnir. Smápollar bara fimm eða sex ára gamlir tala reiprennandi ensku.

DEILA