Mikill stuðningur landsmanna við fiskeldi á Vestfjörðum

Tæplega helmingur landsmanna er jákvæður til fiskeldis á Vestfjörðum samkvæmt viðhorfskönnun sem Gallup gerði í nóvember 2018 fyrir Vestfjarðastofu. Alls 46,3% landsmanna eru jákvæðir gagnvart fiskeldi í sjó á Vestfjörðum en 29,6% eru neikvæðir og 24,1% eru hvorki jákvæðir né neikvæðir.

Mestur stuðningur við fiskeldi í sjó á Vestfjörðum var í Suðurkjördæmi þar sem rúmlega 62% voru jákvæðir en 20% neikvæðir. Minnstur stuðningur við fiskeldi í sjó reyndist meðal svarenda í Reykjavíkurkjördæmi suður þar sem tæplega 32% voru jákvæðir gagnvart fiskeldi í sjó á Vestfjörðum en 38% voru neikvæðir. Í Norðvesturkjördæmi voru tæplega 54% jákvæðir gagnvart fiskeldi í sjó á Vestfjörðum, tæplega 23% voru neikvæðir og tæplega 24% voru hvorki jákvæði né neikvæðir. Spurt var „Ertu jákvæð(ur) eða neikvæð(ur) gagnvart fiskeldi í sjó á Vestfjörðum?“ og tæplega 89% þátttakenda tók afstöðu til spurningarinnar.

Um netkönnun var að ræða þar sem haft var samband við 1415 manns 18 ára og eldri af öllu landinu handahófsvaldir úr Viðhorfahópi Gallup, alls svöruðu 822 og var þátttökuhlutfall 58,1%.

DEILA