Meirihluti tilbúinn í verkfall

Greining á könnun MMR.

MMR hefur kynnt niðurstöður könnunar á viðhorfum landsmanna gagnvart verkföllum. Könnunin var framkvæmd dagana 15. til 21. nóvember 2018 og var heildarfjöldi svarenda 928 einstaklingar, 18 ára og eldri.

Fram kemur að 59% svarenda er tilbúinn til þess að taka þátt í verkfalli. Þá er íbúar landsbyggðarinnar mun tilbúnari í verkfall en íbúar á höfuðborgarsvæðinu. Þeir sem styðja Sjálfstæðisflokkinn (22%) voru síst tilbúnir í verkfall og á hinum endanum eru stuðningsmenn Flokks fólksins herskárstir (94%). Þá töldu 74% svarenda  réttlætanlegt að beita verkfalli vegna aðstæðna á vinnumarkaði um þessar mundir.

Helstu niðurstöður:

  • Nærri þremur af hverjum fjórum (74%) þykir réttlætanlegt fyrir ákveðnar stafsstéttir að beita verkfalli til að ýta á um bætt starfskjör og meirihluti (59%) er tilbúinn að taka þátt í verkfalli til að bæta starfskjör sín.
  • Konur (81%) voru líklegri en karlar (68%) til að segja verkföll réttlætanleg en 66% kvenna kváðust reiðubúnar til að taka þátt í verkfalli, samanborið við 54% karla.
  • Svarendur yngsta aldurshópsins (18-29 ára) voru líklegust allra aldurshópa til að segja verkfallsaðgerðir réttlætanlegar (84%) og vera tilbúin að taka þátt í slíkum aðgerðum (65%). Jákvæðni gagnvart verkföllum fór minnkandi með auknum aldri.
  • Íbúar landsbyggðarinnar voru líklegri til að segjast tilbúin að taka þátt í verkfalli á næstu misserum (65%) heldur en íbúar höfuðborgarsvæðisins (55%).
  • Stuðningsfólk Flokks fólksins var líklegast til að segja verkföll réttlætanleg (97%) og vera tilbúin til að fara sjálf í verkfall (94%). Þá var stuðningsfólk Sjálfstæðisflokksins líklegast til að segja verkföll ekki réttlætanleg (71%) og ekki vera tilbúin til að fara sjálf í verkföll (78%).
DEILA