Jólahefðir

Andrea Gylfadóttir vinkona mín skoraði á mig að fjalla um jólahefðir. Hugurinn fór beinustu leið á flug aftur í tímann. Ég er alinn upp við mjög fastar skorður við jólahald. Það var ekki farið frjálslega með skrauðtið, útiseríurnar fóru upp í fyrsta lagi 1. desember og skrautið ekki fyrr en á þorláksmessu. Heimagerður aðventukrans sem var tilbúinn fyrir fyrsta í aðventu og aðventan var notuð í bakstur 17 sorta og annan undirbúning. Heimagerð svínasulta var árviss viðburður og svínshausinn í eldhúsvaskinum minnti hressilega á að nú væru jólin á næsta leiti. Að vísu má segja að allt sem skipti máli um jólin byrtist í eldhúsvaskinu, umræddur svínshaus, rjúpurnar, mömmukremsskálin sem var alltaf of vel sleikt með of litlum afgöngum. Einnig var laufabrauðsútskurður þar sem afi mundaði skurðhnífinn af ótrúlegri nákvæmni árviss viðburður.

Jólaþrifin voru af gamla skólanum, allt var þrifið hátt og lágt og loka kapphlaupið við tímann á þorláksmessu var ótrúlegt. Oftast var amma uppi á stól um út um allt hús að ganga úr skugga um að jólin kæmu nú ekki að okkur með óhreina skápa eða skúffur. Á þorláksmessu kom svo allur herskarinn, mamma, systkini hennar og fjölskyldur fylltu húsið. Hlaðborð með hangikjöti og hinu alræmda kartöflusallati ásamt síld og öðrum kræsingum var á borðinu fyir alla sem tíndust inn um dyrnar yfir daginn. Uppsetning og suða á jólatrénu var oftast í höndum bróðir mömmu og hann notaði mig grimmt sem aðstoðarmann sem hélt undir tréð á meðan hann passaði að fóturinn næði að tolla í pottinum. Við skreittum svo tréð með öllu því mislita og misfallega jólaskruti sem safnast hafði saman í gegnum árin. Mikilvægasta stundin var svo að setja upp toppinn, toppinn sem var dæmdur ónýtur fyri aldamót. Við Dóri fórum sér ferð að kaupa nýjan topp á tréð en þegar kom að því að setja þann nýja upp var ákveðið að líma þann gamla saman með límbandi og gefa toppinum eitt ár enn. Skemmst er frá því að segja að toppurinn sem var keyptur fyrir rúmlega 20 árum hefur enn ekki verið tekinn úr kassanum og sá gamli hangir enn á líminu.

Jólin voru tími stórfjölskyldurnnar og mamma var orðin fertug þegar hún hélt sín fyrstu jól á sínu heimili. Ég hafði því ansi fastmótaðar hugmyndir um jólahald og ætlaði að halda í hefðirnar þegar ég færi sjálf að búa en lífið hjá mér sem námsmanni og bóksala var ekki í takt við hefðirnar. Í staðinn fyrir jólaskreytingar á þorláksmessu var vinna í bókabúðinni til klukkan 23:00 og hálftíma matarhlé tók ég með mínum manni á hótelinu eða í Hamraborg. Ég ákvað því fljótt að sætta mig við að gamli tíminn væri liðinn og mín jól yrðu aldrei eins og hjá ömmu og afa. Okkar jól eru líklega í takt við jólin hjá mörgum ungum fjölskyldum. Lokapróf, vinna og aðrar skildur í bland við nokkrar vel valdar hefðir sem krefjast ekki of mikillar nákvæmini í tímasettningu. Aðventan hjá okkur er sjaldnast eins og við borðum ekki alltaf sama matinn. Við höfum verið 3 saman um jólin og við höfum líka verið 15 saman um jólin. Á hverju ári gerum við eitthvað öðruvísi en reynum að njóta, slaka á og eiga góðar stundir. Mikilvægast er að kafna ekki úr stressi eða gleyma sér í því kapphlaupi sem hefst oft í aðdraganda jóla.

Ég vil skora á Janinu Magdalenu Kryszewsku að taka við keflinu og segja okkur frá sínum jólahefðum.

Með jólakveðju.

Sigþrúður Margrét Gunnsteinsdóttir

DEILA