Nefnd um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið hefur skilað af sér viðamikilli skýrslu til efnahags- og fjármálaráðherra. Verður skýrslan tekin til umræðu á Alþingi í upphafi vorþings og efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis fær skýrsluna til umfjöllunar. Þá verður opnuð samráðsgátt við almenning um efni skýrslunnar. Í framhaldinu munu stjórnvöld vinna að breytingum á fjármálakerfinu.
Erlendis tíðkast að fá sérfróða aðila til þess að vinna að hugmyndum um langtímastefnu í einstökum málaflokkum. Þær eru svo lagðar fram til almennrar umræðu. Slíkar skýrslur eru gjarnan kallaðar hvítbók. Næsta skref er svo að vinna nákvæmar útfærðum tillögum á langtímastefnunni að lokinni opinberri umræðu.
Nefndin dregur fram þrjú atriði sem að hennar mati eru meginatriði í framtíðarsýninni : gott regluverk og öflugt eftirlit, hagkvæmni í bankarekstri og traust eignarhald fjármálafyrirtækja eru þær þrjár meginstoðir sem framtíðarsýn íslensks fjármálakerfis þarf að mótast af.
Leggur starfshópurinn áherslu á að ákvörðun verði tekin um að draga varnarlínu vegna fjárfestingabankastarfsemi viðskiptabanka og að komið verði á fót miðlægum skuldagrunni sem nýttist stjórnvöldum og fjármálafyrirtækjum við að afla betri upplýsinga um skuldsetningu heimila og fyrirtækja. Einnig er bent á að virk samkeppni og öflugt aðhald viðskiptavina sé lykilforsenda þess að hagræðing skili sér til neytenda og lítilla fyrirtækja. Þessir þættir séu mikilvægir til þess að traust byggist upp að nýju á íslenska fjármálakerfinu.
Nefndin telur að rök séu fyrir því að dregið verði úr víðtæku eignarhaldi ríkisins í fjármálafyrirtækjum til þess að draga úr áhættu, fórnarkostnaði og neikvæðum samkeppnisáhrifum og að fjölbreytt eignarhald sé til þess fallið að ná sátt og draga úr áhættu.
meðal hugmynda nefndarinnar er að lækka skatta á bankanna og bent er á að þeir séu hér á landi mun hærri en í öðrum löndum.