Hringsdalur: ástand lífríkis undir sjókvíum mjög gott

 

Fréttaskýring:

Í sumar voru kynslóðaskipti í sjókvíum Arnarlax við Hringsdal í Arnarfirði. Skylt er að hvíla svæðið milli kynslóða og áður en lax er settur út að nýju fer fram úttekt á lífríkinu undir kvíunum. Skýrslan um ástandið kom út í september og var það fyrirtækið Akvaplan-niva AS sem annaðist verkið.

Tekin voru botnsýni á 16 stöðum undir kvíunum og á þeim gerðar ýmsar athuganir. Samandregnar niðurstöður eru að átta sýnin fengu hæstu einkunn, eða ástandið mjög gott. Sjö sýnin fengu næsthæstu einkunn, gott og eitt sýnið fékk einkunnina slæmt.  Í heildina tekið fær svæðið mjög góða einkunn, sem þýðir að álagið á eldissvæðinu er vel undir því sem lífríkið og botninn þolir.

Ný kynslóð af eldisfiski var sett út í júlí eftir þriggja mánða hvíld. Við það hafa eigendur í Hringsdal gert athugasemdir og lagt fram kæru og vísa til þess að hvíldin þurfi samkvæmt starfsleyfi að vera a.m.k. 6 -8 mánuðir. Árni Finnsson, formaður Náttúrurverndarsamtaka Íslands skrifar í gær harðorða grein á visir.is og í Fréttablaðið og segir Arnarlax vísvitandi brjóta lög og að eftirlitsstofnanir viti af brotinu en aðhafist ekki neitt. Fer ekki á mála að Árni Finnsson vill að starfsemi Arnarlax við Hringsdal verði stöðvuð.

Gögn í þessum eldismálum eru að miklu leyti opinber og tiltölulega aðgengileg. Við athugun þessa máls kemur í ljós að í starfsleyfinu sem Umhverfisstofnun gaf út 15.2. 2016 fyrir 10 þúsund tonna eldi stendur skýrt að hvíla skuli svæði milli eldislota í lágmarki sex til átta mánuði. Umhverfisstofnun starfar samkvæmt lögum frá 1998 um Hollustuvernd og mengunarvarnir. Reglugerðin sem útfærir lögin er frá 1999. Þar er ekkert kveðið á um hver hvíldartíminn eigi að vera heldur virðist Umhverfisstofnun vera falið að ákveða það í hverju tilviki. Eftir því sem næst verður komist  hefur Umhverfisstofnun hliðsjón af áætlun viðkomandi fyrirtækis þegar það gerir sína eldisáætlun og hefur því Arnarlax gert ráð fyrir þessum hvíldartíma á sínum tíma, líklega um 2014.

En rekstrarleyfið er gefið út af Matvælastofnun (MAST), sem heyrir undir Atvinnuvegaráðuneytið. Rekstrarleyfið fer eftir öðrum lögum, lög um fiskeldi sem eru frá 2008. Reglugerðin er svo frá 2015. Þar er kveðið á um að hvíld skuli vera a.m.k. 90 dagar milli kynslóða. Arnarlax uppfyllir þær kröfur við útsetningu nýrrar kynslóðar laxa við Hringsdal. Svo það er engin athugasemd gerð við rekstrarleyfið.

Þarna er auðvitað ósamræmi milli tveggja stofnana og leyfisveitenda um sama málið, sem er sérkennilegt. Hafa ber í huga að tilgangur ákvæðanna um hvíld á eldissvæði er til þess að verja náttúruna og gæta að því að eldið gangi ekki nærri henni. Ástandið hefur verið athugað og fær mjög góða einkunn svo segja má að enginn vandi er uppi í málinu, annar en sá að gengið er gegn ákvæðinu í starfsleyfinu.

Arnarlax hefur brugðist við með því að sækja um til Umhverfisráðuneytisins undanþágu frá ákvæðinu í starfsleyfinu að þessu sinni með skírskotun til góðs ástands svæðsins og umsagnar frá Matvælastofnun sem segir ekki ráðlegt að fara í tilfærslu á fiskinum sem er í kvíunum. Yrði þessu umsókn samþykkt yrði væntanlega næsta hvíldarlota 6 -8 mánuðir eins og segir í starfsleyfinu. Hins vegar þá hefur Arnarlax sótt um til Skipulagsstofnunar, sem hefur umsjón með umhverfismatinu, um varanlega breytingu á hvíldartímaákvæðinu þannig að það verði þrír mánuðir. Verði það samþykkt er kærar úr sögunni. Þetta hefur bb.is fengið staðfest.

Báðar þessar umsóknir eru til meðferðar um þessar mundir. Skrif Árna Finnassonar, verður líklega að skoðast í því ljósi að samtökin sem hann stendur fyrir leggjast gegn fiskeldinu og vilja að öllum líkindum að starfsleyfið verði fellt úr gildi og laxeldinu hætt.  Haft var samband við forsvarsmenn Arnarlax en þeir báðust undan viðtali meðan umsóknir þeirra væru til meðferðar.

-k

 

DEILA