Hafró: virðir fyrirspurnir HG að vettugi

Sigurður Guðjónsson, forstjóri Hafrannsóknarstofnunar.

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Hraðfrystihússins Gunnvör hf skrifar áramótahugvekju á  heimasíðu fyrirtækisins og fer yfir helstu máls ársins. Meðal annars reifar hann stöðu fiskeldismála hér fyrir vestan. Eftir 16 ára uppbyggingarstarf er svo komið, skrifar Einar Valur , að dótturfyrirtækið Háafell er ekki með neinn fisk í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Ástæðan er sú að leyfisumsóknir velkjast um í kerfinu og fá ekki afgreiðslu.

Hefur það leitt til þess að þurft hefur að segja upp reynslumiklu starfsfólki. Ítrekað hafi brugðist fyrirheit Hafró um svör og er svo komið, að sögn Einars Vals, að forstjóri Hafrannsóknarstofnunar svarar ekki lengur fyrirspurnum HG.

Orðrétt segir í  hugvekju Einars Vals um stöðu fiskeldismála:

„Eftir 16 ára uppbygginarskeið í fiskeldi er svo komið að dótturfyrirtækið Háafell er ekki með neinn fisk í sjókvíum í Ísafjarðardjúpi. Þrátt fyrir að framleiða heilbrigð og hraust laxaseiði á Nauteyri höfum við þurft að láta þau frá okkur vegna stöðu leyfismála sem velkjast um í stjórnkerfinu. Því miður hefur það leitt til uppsagna á reynslumiklu og góðu starfsfólki sem mikil eftirsjá er að.

Vonir voru bundnar við endurskoðun áhættumats erfðablöndunar sem forstjóri Hafró hafði boðað þegar „sól stæði hæst á lofti“. Sumarsólstöðurnar urðu þó ekki fyrr en 5. júlí. Ekki var staðið við endurskoðun matsins en tilkynnt að óskað yrði eftir samstarfsaðilum um eldi á 3.000 tonnum af laxi í Djúpinu. Átti auglýsing í þá veru að birtast í lok ágúst, það stóðst ekki.  Háafell fékk þá upplýsingar um að auglýst yrði í október, það stóðst ekki heldur. Síðan þá hefur forstjóri Hafró ekki séð ástæðu til þess að svara fyrirspurnum Háafells um málið þrátt fyrir ítrekaðar óskir .
Samfélögin við Djúp eru því í gíslingu Hafró og stjórnsýslunnar og á meðan koðna niður réttmætar væntingar til uppbyggingar atvinnulífs á svæðinu.  Er það því einlæg ósk okkar að stjórnmálamenn muni á nýju ári setja strangar og skýrar reglur um fiskeldi sem hægt verður að vinna eftir og treysta á. Óvissan er okkar versti óvinur.“

Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri HG.
DEILA