Hæstiréttur: viðurkennir skaðabótaábyrgð ríkisins. Krafan nemur milljörðum króna.

Húsnæði Ísfélags Vestmannaeyja hf.

Hæstiréttur felldi í gær dóm í tveimur málum sem varðandi skiptingu makrílkvóta á árunum 2011 – 2014. Niðurstaða Hæstaréttar er að viðurkennt er að ríkið skaðabótaábyrgð á því tjóni sem útgerðirnar, sem málið höfðuðu, kunna að hafa beðið vegna annarrar úthlutunar á makrílkvóta en lög mæla fyrir um. Telja útgerðarfélögin að skip þeirra hafi fengið minni kvóta til veiða á þessum árum en annars hefði verið.

Útgerðarfélögin sem um ræðir eru Ísfélag Vestmannaeyja hf og Huginn ehf í Vestmannaeyjum. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði í fyrra komist að gagnstæðri niðurstöðu og sýknað ríkið.

Það sem í raun um er deilt er kvótasetning makrílveiðanna. Þegar makrílveiðar voru takmarkaðar var kvóta skipt í flokka og deilt niður á skip til skamms tíma. Krafa útgerðarfélaganna er sú að fá veiðiréttindin ótímabundið sem aflahlutdeild sem yrði hægt að framselja.

Lögin um stjórn fiskveiða og önnur lög um veiðar utan lögsögu Íslands kveða á um það að úthluta skuli aflahlutdeildum ef veiðr úr stofni eru takmarkaðar og til er samfelld veiðireynsla árin á undan. Hæstiréttur segir að  aðstæður hafi verið þannig að aflahlutdeildarsetja hefði átt veiðiréttinn samkvæmt veiðireynslunni.

Hæstiréttur ógildir ekki þær ákvarðanir sem teknar hafa verið heldur segir að ríkinu beri að bæta útgerðum skaðann sem þær kunna að hafa orðið fyrir vegna þeirra.

Dómurinn segir að skip Ísfélags Vestmannaeyja hf hefðu árið 2011 átt að fá 15,7% af kvótanum en fengu 12,08%. Deloitte metur tjónið 2,3 milljarðar króna. Ekki kemur fram í dómnum hvernig þessi upphæð er fengið, en ljóst er að verðmæti þess magns af makríl sem félagið fékk ekki til veiða er ekki nema brot af þessari upphæð svo ætla má að Deloitte hafi áætlað verðmæti aflahlutdeildarinnar, það er verðmæti varanlega kvótans. Reynist það rétt mat þá snýst skaðabótamálið, sem væntanlega verður höfðað í framhaldi af dómi Hæstaréttar um það hvort ríkinu beri að greiða útgerðum verðmæti kvótans sem sakmvæmt 1. grein laga um stjórn fiskveiða er sameign þjóðarinnar.

DEILA