Bréf um kvótann

Jón Páll Jakobsson, útgerðarmaður frá Bíldudal.

Stundum verður maður að staldra við og núllstilla sjálfan sig. Ég er uppalinná Bíldudal, hefðbundnu sjávarútvegsplássi fyrir vestan. Þar ólst ég upp, sleit barnskónum eins og þykir flott að segja. Ég valdi sjómennsku sem mitt ævistarf, sótti mér menntun í þeim fræðum og hef starfað við þá grein alla tíð síðan.

Eftir algjört þrot í eigin rekstri þar sem ég reyndi að gera út bát í kvótalausu umhverfi, þar sem lögmálið var reyna tapa sem minnstu, hraktist ég til Noregs og hef starfað þar meir og minna síðan 2009.

Ég hef alist upp í kvótakerfi allann minn sjómannsferil því ég mætti til leiks þegar hagræðingin var byrjuð fyrir alvöru og kvóti gekk kaupum og sölum í nafni hagræðingar. Ég vill meina í hálfgerðri græðgi. Ég hef oft spurt mig hverju hefur þessi græðgi í raun skilað, fyrir hvern var hún og hvers vegna var hún framkvæmd og hver stóð fyrir henni.

Nú vill svo til að í dag er ég að upplifa sömu martröðina eða drauminn, það fer eftir því hvoru megin þú ert við borðið. Út í Noregi er sem sagt verið að hagræða kerfið með sömu rökum og á Íslandi: Færri bátar, færri vinnslur, færra fólk og meiri hagsæld fyrir okkur hin.

Kvótaverð hefur rokið upp svo nú er nýliðun nánast ómöguleg, þ.e.a.s að kaupa sér veiðiheimildir og hefja útgerð. Verð hefur hækkað um nær 150% á tveimur til þremur árum og á sama tíma hefur fiskverð hækkað um 10 til 15 %.

Bóluhagkerfi hefur myndast. Eigið fé er búið til, kannski myndu sumir segja falsað, með hækkun á kvótaverði og lánastofnanir gleypa við þessu. Og hverjir stjórna verðinu? Jú, auðvitað greinin sjálf og þegar framboð er meira en eftirspurn á takmarkaðri auðlind hækkar verðið og kvótaverð má ekki lækka því versta martröð nútíma útgerðarmanns er ekki verðfall á mörkuðum eða hækkun á vöxtum eða gengisstyrking heldur lækkun á verðmæti kvótans.

Bóluhagkerfi getur ekki þrifist nema með hjálp bankanna og bankanir elska bóluhagkerfi sem er í rauninni það sem drífur þá áfram svo þeir eru meira en tilbúnir að taka þátt. Og nú skal ég segja ykkur raunverulega dæmisögu úr bankanum: Ég ákvað kaupa mér meiri kvóta svo ég fór í bankann og bar upp erindi mitt við bankastjórann og hann spurði strax hvar eigið féið mitt væri. „Ja, sko kvótinn sem ég á hefur sko hækkað um nánast 1,5 miljón norskar krónur,“ sagði ég. „Og þar liggur eigið féið mitt og með meiri kvóta get ég fiskað meira og þegar sá kvóti hækkar í verði eykst eigið féð.“

Sjálfur reksturinn er farinn að skipta litlu máli og mun sjálfsagt enda hér hjá mörgum eins og hjá ófáum kollegum þeirra á Íslandi. Rekstrarlega mun þetta ekki ganga upp og þá selja menn og það eru alltaf aðeins stærri fiskar sem vilja éta þá minni, það er nefnilega ein partur af Bóluhagkerfinu. Ég mun sennilega labba út með dágóða summu eftir nokkur ár og sennilega verða svo plataður af bóluhagkerfinu til fjárfesta í einhverju öðru bóluhagkerfi því það verður að koma peningunum aftur í umferð.

Ég set stórt spurningarmerki við þetta háttalag stjórnvalda, stjórnmálamenn og samfélagsins all, og þar er ég engin undantekning. Hvers vegna var þetta ekki gert á annan hátt heima á Íslandi? Hvers vegna var ekki reynt að stýra græðginni? Nú þegar Norðmenn virðast ætla fara nákvæmlega sömu leið með sína takmörkuðu auðlind, verð ég eitt gapandi spurningarmerki. Hvers vegna gera þeir þetta? Að sjálfsögðu er syndandi fiskur í hafinu verðmæti sem hægt er selja þegar búið er að veiða hann af þeirri einföldu ástæðu að hann gefur okkur orku, prótein og magafylla sem við öll þurfum. En var nauðsynlegt að kauphallavæða blessaðann fiskinn?

Hrunið núllstillti íslenskan sjávarútveg. En ekkert bankahrun er í augnsýn hér í Noregi. Svo ég spyr mig: hvernig munu þeir núllstilla kerfið hér. Það er nefnilega óumflýjanlegt því um leið og þú hættir að stækka í bóluhagkerfi ertu búinn að vera? Þú þarft á núllstillingu að halda því á endanum verður sjálfur fiskurinn að borga allt saman. Og til hvers var þá þetta allt saman?

Mbk

Jón Páll Jakobsson.

Útgerðarmaður í Noregi.

DEILA