Ávarp forseta Alþingis við frestun þingfunda 14. desember 2018

Steingrímur J. Sigfússon

Alþingi hefur lokið störfum sínum fyrir jólin og þingfundum hefur verið frestað fram til loka janúar 2019. Hér birtist ávarp Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis sem flutt var við þingfrestunina.

Háttvirtir alþingismenn. Nú er komið að lokum síðasta fundar Alþingis fyrir jólahlé, síðasta þingfundar á árinu 2018.
 
Undanfarnir dagar hafa ekki að öllu leyti verið einfaldir eða auðveldir hér á Alþingi.
 
Engu að síður hefur þingið skilað góðu verki í þingstörfunum undanfarnar vikur. Samþykkt fjárlaga fyrir næsta ár lauk 7. desember og jafnframt auðnaðist okkur að ljúka afgreiðslu margra annarra mikilvægra mála innan tímaramma starfsáætlunar þingsins. Ein 44 mál hafa hlotið afgreiðslu úr nefndum og öll verið gerð að lögum eða ályktunum Alþingis. Er þessi haustönn þar með orðin ein sú afkastamesta í sögu Alþingis. Þessi árangur og tímanleg afgreiðsla mála er til mikilla bóta fyrir einstaklinga, samtök og stofnanir sem þurfa að vinna eftir þeirri löggjöf sem hér er sett fyrir áramót og skiptir þá ekki síst máli að fjárlög komandi árs liggi nú fyrir í byrjun desember. Ég þakka öllum sem lögðu hönd á plóginn svo þetta mætti takast.
 
Það ár sem nú er senn að renna sitt skeið á enda markar mikilvæg tímamót í sögu okkar. Allt árið hefur þess verið minnst með margvíslegum hætti að liðin eru 100 ár frá því að við urðum fullvalda ríki. Það er sérstaklega ánægjulegt hvernig þessara tímamóta hefur verið minnst með fjölbreyttum hætti um land allt. Að mínu mati er það til mikils sóma hversu virkan þátt skólar, söfn, stofnanir, félagasamtök og sveitarfélög hafa tekið í því að minnast þessara tímamóta. Ég vil fyrir hönd Alþingis þakka öllum þeim sem lagt hafa sitt af mörkum til að gera þetta ár jafn viðburðaríkt og raun ber vitni. Ekki síst vil ég fá að þakka afmælisnefnd fullveldisársins, sem Alþingi kaus, fyrir hennar góða starf.
 
Alþingi sjálft minntist þessara tímamóta með hátíðarfundi á Þingvöllum í sumar þar sem samþykkt var að stofna Barnamenningarsjóð Íslands og hefja smíði sérstaks hafrannsóknaskips. Til beggja þessara verkefna eru veitt framlög í fjárlögum fyrir næsta ár: 100 millj. kr. framlag er til fimm ára mun renna í Barnamenningarsjóð Íslands og á næsta ári eru veittar 300 millj. kr. til undirbúnings smíði hafrannsóknaskips. Þá mun Alþingi leggja Hinu íslenska bókmenntafélagi lið við metnaðarfulla bókaútgáfu í tilefni af fullveldisafmælinu.
 
Sérstakt framlag Alþingis til þeirra fjölmörgu fullveldisviðburða var svo opið hús hér á Alþingi 1. desember sl. Nærri 2.700 manns heimsóttu Alþingi þann daga og var greinilegt að fólk hafði gaman af því að fá tækifæri til að skoða þetta fallega hús sem er ein helsta gersemi þjóðarinnar. Um leið gafst tækifæri til að spjalla við þingmenn og starfsmenn Alþingis. Við höfum við sérstök tækifæri staðið fyrir opnu húsi hér, eins og gert var á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna árið 2015 og 200 ára ártíð Jóns Sigurðssonar árið 2011. En sá mikli áhugi sem er ætíð fyrir opnu húsi sýnir að það er tímabært að skoða hvort við eigum ekki að fjölga slíkum viðburðum á Alþingi. Það gæti t.d. farið vel á því að Alþingishúsið yrði opið öllum frá hádegi 17. júní ár hvert. Í öllu falli hyggst forseti haga því svo á næsta ári þegar við um leið minnumst 75 ára afmælis lýðveldisins.
 
Annar ánægjulegur viðburður sem tengdist fullveldisárinu var opnun nýrrar og endurgerðrar sýningar í Jónshúsi í Kaupmannahöfn 6. desember sl. á heimili Ingibjargar Einarsdóttur og Jóns Sigurðssonar. Mikill fjöldi Íslendinga sem búsettir eru í Kaupmannahöfn var viðstaddur opnunina og einnig sungu þeir kórar sem hafa aðstöðu í Jónshúsi. Ég hafði þá ánægju að vera viðstaddur og opna sýninguna. Heimili þeirra Ingibjargar og Jóns sem var á 3. hæð hússins hefur verið endurgert á grundvelli heimilda um líf þeirra hjóna í Kaupmannahöfn, byggingasögulegra rannsókna á íbúðinni sjálfri auk sagnfræðilegra rannsókna á heimilislífi um miðbik 19. aldar í Kaupmannahöfn. Þjóðminjasafn Íslands tók að sér vinnu við gerð sýningarinnar fyrir hönd Alþingis og leysti það verk af hendi með miklum sóma. Ég vil nota þetta tækifæri og hvetja þá landsmenn sem leið eiga um Kaupmannahöfn að koma við í Jónshúsi og njóta þessarar sýningar. Það verður enginn svikinn af slíkri heimsókn.
 
En í Jónshúsi er ekki bara að finna endurgert heimili þeirra hjóna Ingibjargar og Jóns því að eins og á þeirra dögum er húsið í dag miðstöð félagsstarfsemi Íslendinga í Kaupmannahöfn og nágrenni. Þar er m.a. að finna öflugt kórastarf og þar er aðstaða fyrir íslenskukennslu barna á grunnskólaaldri í Kaupmannahöfn, en um 80 börn sækja íslenskukennslu þar hvern laugardag. Það var því sérstaklega ánægjulegt að geta fært Íslenskuskólanum bókagjöf í tilefni fullveldisafmælisins, en það voru 100 eintök af barna- og unglingabókinni Óskabarn sem fjallar um ævi og starf Jóns Sigurðssonar og er skrifuð af Brynhildi Þórarinsdóttur.
 
Það líf og starf sem er í Jónshúsi og hið mikla gildi sem það hefur fyrir Íslendinga á Hafnarslóð og í nágrenni vekur áleitnar spurningar um hvort ekki þurfi að stuðla að því víðar þar sem eru fjölmennustu Íslendingabyggðirnar erlendis að til komi slíkar miðstöðvar.
 
Nú við lok þinghalds vil ég láta í ljósi sérstaka ánægju mína með þann góða vilja sem þingmenn hafa sýnt til að leysa úr þeim málum sem brýnast var að afgreiða fyrir jólahlé þingsins. Þá vil ég þakka varaforsetum fyrir góða samvinnu um stjórn þingfunda. Ég þakka jafnframt formönnum stjórnmálaflokkanna og þingflokkanna fyrir lipurt og gott samstarf. Ég hef einnig átt mjög gott samstarf við formenn fastanefnda þingsins í því skyni að bæta skipulag þinghaldsins og stuðla að því að mál séu afgreidd jafnar úr nefnd en fyrr hefur verið. Ég hyggst halda slíku samstarfi áfram og funda af og til með formönnum fastanefnda í þessu skyni. Þá hefur ríkisstjórnin og Stjórnarráðið einnig lagt sitt af mörkum með því að þingmálaskrá sé áreiðanlegra plagg en oft hefur verið og allt hjálpar þetta til við að gera fyrirsjáanleika vinnunnar hér meiri. Þá er áfram unnið markvisst að margþættri áætlun um að styrkja Alþingi og búa betur að starfinu hér.
 
Í lok þessa síðasta þingfundar ársins 2018 ítreka ég þakkir mínar til þingmanna, ráðherra og ekki síst starfsfólks Alþingis fyrir þess ómetanlegu störf og óska þeim öllum gleðilegrar og friðsællar jólahátíðar og farsæls nýs árs.
 
Þeim sem eiga um langan veg heim að fara óska ég góðrar heimferðar og góðrar heimkomu og bið þess að við megum öll hittast heil á nýju ári.
 
Landsmönnum öllum sendi ég mínar bestu jóla- og nýárskveðjur.
DEILA