Aðventukvöld í Hólskirkju 9. desember

Að venju verður aðventukvöld í Hólskirkju á 2. sunnudag í aðventu. Bolvíkingar fagna þá 110 ára vígsluafmæli kirkju sinnar og verður þetta 53. aðventukvöldið, sem haldið er hátíðlegt. Sigríður Norðquist sem var organisti við Hólskirkju í meira en þrjá áratugi var frumkvöðullinn og var fyrsta aðventukvöldið haldið árið 1965. Í flestum kirkjum landsins eru nú haldnir aðventutónleikar ár hvert en hvergi á hefðin þó jafn langa samfellda sögu og í Hólskirkju.

Dagskrá aðventukvöldsins verður hefðbundin. Fremingarbörn bera ljós í bæinn, sr. Ásta Ingibjörg Pétursdóttir sóknarprestur leiðir stundina, kirkjukór Bolungarvíkur syngur undir stjórn Guðrúnar B Magnúsdóttur organista, barnakór syngur undir stjórn Sigrúnar Pálmadóttur söngkonu, sem einnig syngur með kirkjukórnum.

Að þessu sinni flytur Ester Jónatansdóttir aðventuhugleiðingu.

Nýtt orgel í Hólskirkju Í tilefni af aldarafmæli kirkjunnar árið 2008, var stofnaður orgelsjóður með það að markmiði að safna fyrir nýju pípuorgeli. Kristný heitin Pálmadóttir, sem söng í kirkjukórnum í áratugi, gaf fyrstu gjöfina, að fjárhæð kr. 500.000,- Í október árið 2017 var síðan undirritaður samningur við Björgvin Tómasson orgelsmið um smíði á 9 radda pípuorgeli í kirkjuna. Í samningnum var gert ráð fyrir að orgelið yrði vígt nú á aðventunni á 110 ára afmæli kirkjunnar, en af óviðráðanlegum orsökum seinkar afhendingu um nokkra mánuði.

Gamla orgelið Gamla orgelið sem Bolvíkingar ákváðu að gefa kirkjunni í tilefni af 50 ára vígsluafmælis hennar var vígt við hátíðarmessu 17. júní árið 1960 og var því notað samfellt í 58 ár. Það var barn síns tíma og hefur nú verið tekið niður og mun ekki verða notað til tónlistarflutnings meir. Stór hluti af orgelpípum gamla orgelsins verður nýttur í nýja orgelið sem mun á næstu mánuðum verða sett upp í kirkjunni. Komið hefur upp sú hugmynd hvort einhver áhugasamur safnari hefði áhuga á að varðveita spilaborðið og nýta það til einhvers, þótt ekki verði hægt að spila á það.

Breyttur tími Aðventukvöldið verður að þessu sinni haldið í kirkjunni kl 17.

Kaffisala í Safnaðarheimili Að lokinni dagskrá í kirkjunni mun unglingadeild Grunnskóla Bolungarvíkur sjá um veitingar í safnaðarheimilinu. Fjórtán ára eldri greiða 1500 kr, frítt fyrir þrettán ára og yngri. Ágóði kaffisölunnar rennur til styrktar Marcel Knop nemanda í 9. bekk og fjölskyldu hans, en Marcel glímir við erfiðan sjúkdóm.

 

DEILA