Aðventukvöld í Hólskirkju 9. desember 2018

Ester Jónatansdóttir flytur hugvekju sína. Mynd: Helgi Hjálmtýsson.

Kæru kirkjugestir, gleðilega hátíð.

Hugurinn reikar fimmtíu ár aftur í tímann. Ég er þrettán ára. Ég sit hægra megin í kirkjunni í bleikum ermalausum kjól, tískusniði þess tíma. Minningin er afar sterk. Mér fannst þetta einstök stund, björt og hlý í dimmasta skammdeginu. Kirkjan okkar var 60 ára gömul og árleg aðventukvöld voru að byrja að festa sig í sessi. Þetta var hátíðarstund. Pabbi minn flutti hugvekjuna að þessu sinni. Árið 1968 hafði verið mikið sorgarár í Bolungarvík, slysin miklu í Ísafjarðardjúpi þegar Heiðrún önnur fórst höfðu djúpstæð áhrif á allt samfélagið í kringum okkur. Í huganum finnst mér eins og kaldir og illviðrasamir febrúardagarnir hafi verið umluktir myrkri allan sólarhringinn. Stormur úti, bátabylgjan á í útvarpinu og skelfing og sorg í andlitum fólks.

Þegar pabbi minn lauk við hugvekju sína með erindum úr sálmi Matthíasar Jochumssonar fannst mér þessi erindi hafa verið sérstaklega samin um Víkina mína og tala beint til okkar.

Hann heyrir stormsins hörpuslátt

Hann heyrir barnsins andardrátt.

Hann heyrir sínum himni frá,

Hvert hajrtaslag þitt jörðu á.

Í almáttugri hendi hans

er hagur þessa kalda lands,

vor vagga braut, vor byggð og gröf

þótt búum við hin ystu höf.

Það er hátíðisdagur í dag þegar 110 ár eru liðin frá vígslu Hólskirkju. Mér er það sönn ánægja að fá að standa í kirkjunni sem mér þykir svo undur vænt um og fá að fagna þessum degi með ykkur.

Á þessum stað hafa menn leitað skjóls og átt helgar stundir á sorgar- og erfiðleikatímum í lífi sínu og hér hafa mörg stærstu og hamingjuríkustu sporin í lífi manna verið gengin . Hér hafa skipst á þungbær harmur og hrífandi hamingja kynslóðanna.

Árið 1908 var lítið þorp að breytast úr verbúðarþorpi í gróskumikið kauptún. Þetta var merkisár. Árið sem framsýnir menn stofnuðu hér Sparisjóð(1) og árið sem Bolvíkingar ákváðu að byggja nýja kirkju á Hóli.

Smíðin hófst um vorið 1908 með efnivið sem kom að mestu tilhöggvinn frá Noregi. Allt efnið þurfti „að bera á sjálfum sér“ eins og sagt var frá sjávarsíðunni og upp Hólinn. En þrátt fyrir erfiða flutninga og litla nútímatækni náðist að vígja kirkjuna sama ár, eða annan sunnudag í aðventu árið 1908. (2). Íbúarnir sem voru í tæplega 500 (3) höfðu reist sína nýju kirkju á aðeins nokkrum mánuðum.

Bolvíkingar hafa ávallt hugsað sérlega vel um kirkjuna sína og sýnt mikinn hlýhug í verki. Ekki eru nema nokkur ár síðan stórvirkar endurbætur voru gerðar á byggingunni og í gegnum tíðina hafa kirkjunni borist gjafir stórar og smáar.

Og enn hafa Bolvíkingar og aðrir velunnarar kirkjunnar tekið höndum saman því brátt mun verða vígt hér nýtt orgel sem sæma mun vel þessu einstaka fallega kirkjuhúsi.

Mér finnst ekki úr vegi á þessum tímamótum að minnast barnastarfsins í kirkjunni og rifja upp kristinfræðikennsluna í skólanum. Barnamessurnar voru mikið nýjabrum og afar vel sóttar. Dagskráin var fastmótuð. Ávallt var lesin smásaga með góðum boðskap, fermingarbörn ársins leiddu söng við undirleik organistans, eitt til tvö lög voru sungin af nokkrum stúlkum við altarið við gítarundirleik. Síðast en ekki síst las sr. Þorbergur fyrir okkur nýja framhaldssögu árlega sem mig grunar að hann hafi stundum þýtt beint við lesturinn. Þegar við kyrjuðum lokasálminn sem ávallt var; „Þú æskuskari á Íslandsströnd“ undirtók í fjöllunum og heim héldu svöng börn í ilmandi og heitan hádegismatinn. Það var sunnudagur.

Kristinfræðikennsluna í skólanum annaðist sóknarpresturinn okkar af mikilli alvöru. Fyrir hvern tíma bar okkur að læra eitt vers í sálmi. Við vitum öll að megináhersla á utanbókarlærdóm er ekki talin mikilvægasta aðferðin við kennslu barna í dag. Ég er þess hinsvegar fullviss að sálmarnir sem við lærðum og sú hugarþjálfun sem í því fólst, skilaði sér síðar í auknum skilningi á kærleiksboðskapnum, aðdáun á fallegum skáldskap og virðingu fyrir tungumálinu okkar og menningararfinum. Gullna reglan, tvöfalda kærleiks-boðorðið og útskýringar á dæmisögum voru sannarlega til þess fallnar að innræta samfélagsvitund og mannréttindi. Já veganestið var gott og trú, heiðarleiki og drengskapur eru sannarlega ekki minna virði en áður. Það er hinsvegar okkar sjálfra að rækta það jákvæða, treysta og trúa, biðja, hlusta og íhuga. Það er hlutverk okkar sem eldri erum að veita komandi kynslóðum menntun og veganesti til að takast á við mótlæti og erfiðleika í lífinu.

Já áhrif bernskuáranna eru margvísleg og víst er að þau rista djúpt og skilja aldrei við mann. Þau móta mann til framtíðar. Bernskuárin í Bolungarvík voru afar dýrmæt, skemmtileg og viðburðarrík. Leiftrandi minningar fara um hugann.

Alhvít fjöllin í allri sinni tign.Börn á skíðasleðum að renna sér á Skólastígnum. Í troll troll í landhelgi á skautum. Skíðin með gormabindingum. Við börnin send með brúsa að kaupa mjólk, með peningana í vettlingunum. Farið við hjá hjá Gústa Jas í fiskibúðinni, heitt brauð keypt í Einarsbúð, pökkuð í hvítan pappir sem aðeins náði yfir mitt brauðið, bolludagur og maskar.

Sólríkir sumardagar. Stelpur í vist með börn í kerrum og nokkur eldri sér við hlið hópuðust saman á róluvellinum.

Konurnar sem unnu í frystihúsinu í nælonskyrtunum með bát eða skuplur á höfðinu á hraðri ferð heim í hádeginu. Dugnaðarforkar að bera út dagblöðin með þungar töskur á báðum öxlum hvernig sem viðraði.

Í minningunni voru líka flestar ömmur með fléttur í hnút að aftan eða í hring um höfuðið og skörtuðu upphlut eða peysufötum þegar mikið stóð til. Steina Júl, Elísabet amma og Beta Bjarna, María Rögnvalds, og auðvitað hún Sala móður amma mín sem bjó hjá okkur eftir að afi dó.

Á sjöunda og áttunda áratugnum átti sér stað mikil uppbygging í Bolungarvík. Það fjölgaði mikið í bænum, mörg ný íbúðarhús risu, tónlistarskóli var stofnaður, götur voru malbikaðar, sundlaug byggð, nýjar verslanir, stærra frystihús, ný skip og bætt hafnarmannvirki.

Sérstaklega eftirminnilegt var þegar flutt var úr litla gamla skólahúsinu, þar sem nú er tónlistarskólinn í 3ja hæða hús, með sértaklega útbúnum kennslustofum fyrir handavinnu, söng og eðlisfræði – og ekki síst: það var leiksvið! Öll þessi undur gáfu okkur sjálfstraust og trú á framtíðina. Það var vel hlúð að okkur og það var gott að finna það.

Samheldni og samhygð eru þó það allra dýrmætasta sem við tókum með okkur. Við sáum að menn störfuðu þétt saman við uppbyggingu Bolungarvíkur og við sáum það og fundum þegar erfiðleikar steðjuðu að.

Og svo leið að jólum.

Á okkar heimili var englaspilið dregið fram í byrjun desember. Það var úr messing og komið var fyrir fjórum snúnum „Hreinskertum“ og þegar kertin höfðu logað smá stund fóru englarnir á ferð og slógu í litla bjöllu. Þessir fíngerðu tónar hringdu inn aðventuna.

Já ekkert í heiminum var eins og jólin. Það þótti okkur systkinunum allavega. Tilhlökkunin var svo mikil og biðin var svo ótrúlega löng. Og undirbúningurinn var mikill. Það þurfti að huga að fötum á mannskapinn. Fötin, sérstaklega drengjafötin voru alltaf vel við stærð og oft var sett bómull í tána á skónum.

Mörgum sinnum var tekið til við bakstur. Smákökusortirnar voru a.m.k. 10 í minningunni. Engu mátti sleppa, sérstaklega ekki mömmukökum, loftkökum, engiferkökum eða vanilluhringjum. Smákökur voru sælgæti jólanna og þeirra var neytt frá aðfangadegi til þrettánda. Aldrei man ég eftir að afgangar hafi orðið. Við fengum að hjálpa til, sérstaklega við að hnoða litlar kúlur og setja eina möndlu á, og smyrja mömmukökur. Brúna lagkakan var bökuð eftir uppskrift frá Oggu Ólafs, síðan var hvít lagkaka, rúlluterur brúnar og hvítar, svampbotnar, súkkulaðikökur og marens.

Það var líka gert hreint,,, svona bara í kring, sagði mamma. Það þýddi að veggir voru ekki þrifnir upp í loft eins og á vorin. Jólagardínurnar í eldhúsið voru settar upp, skór fóru í glugga, og mamma og pabbi skrifuðu saman jólakortin. Húsið var skreytt. Stundum var stungið greni bak við myndir á veggjum og jafnvel sett smá bómull til að líkja eftir snjó. Undir var lengja með íslenska fánanum límd í boga. Þessir siðir eins og aðrir tóku breytingum, tískan hélt innreið sína í Bolungarvík eins og annars staðar.

Á Þorláksmessu voru miklar annir. Oft var jólatréð skreytt á Þorláksmessu og síðan var læst inn í stofuna. Þá fengum við ekki að sjá það fyrr en aðfangadag. Undir hljómuðu jólakveðjurnar í útvarpinu með útvarpsröddunum sem aldrei gleymast.

Og loks rann upp aðfangadagur. Ég sé bræður mína fyrir mér í gráum jakka-fötum, sitjandi á vaskbrúninni á baðinu áður en við héldum til messu. Þeir bleyta greiðuna og greiða hárið vandlega aftur og spennan er næstum áþreifanleg. Rennislétt hár einkadótturinnar var nú með krullur. Mömmu hafði hafði tekist að finna tíma til að skella rúllum í hárið. Það voru stundum forréttindi að vera bara eina stelpan í hópnum.

Í messunni á aðfangadag komu svo loks jólin til okkar með jólaguðspjalli, kertaljósunum og jólasálmum. Með Hiddu frænku og Benedikt, Kristjáni Júl, Stínu Magg, Helgu Svönu, Völu Finnboga, Mörtu Sveina,Únnu, Kristnýju, Karvel og Gesti Pálma og ótal mörgum öðrum eðalsöngvurum. Þarna var fólkið mitt; fjölskyldan, skólafélagar, mæður sem höfðu bakað, þrifið og saumað allan desember, stundum á nóttunni, veðurbarnir sjómenn, iðnaðarmenn og

kennarar. Allir í sínum fínustu sparifötum. Faðmlög og hátíðaróskir á leiðinni út, tunglskin og froststilla, allavega stundum.

Heima var kveikt á kertum og allt varð yfirmáta hátíðlegt. Heimsins besta máltíð indæl steik og möndlugrautur. Ein gjöf fyrir matinn og að máltíð lokinni áttu allir að hjálpast að við að ganga frá.

Á jóladag voru eftirminnileg jólaboð með fjölskyldum okkar, þar sem gengið var kringum jólatré og sungið hástöfum, drukkið heitt súkkulaði eða kók með tertum og smákökum. Þar voru m.a. saman komin á þriðja tug systkinabarna.

Það var gott að vera í fríi frá skólanum og maður átti það auðvitað til að lesa fram á nótt nýja Öddubók eða Ævintýrabók. Milli hátíðanna fengum við spennandi verkefni þegar við fengum að vera með í vörutalningu i verslununum. Það var alltaf tilhlökkunarefni. Og við vönduðum okkur, svo mikið var víst. Mamma okkar vann líka alltaf með okkur þessa daga. Eins og heima fyrir var hún mikil hamhleypa til verka og einstaklega vandvirk. Pabbi kom niður af skrifstofunni og kenndi mér hvernig vörutalning fór fram á efnisströngum. Fyrst mældi hann 1 m af efni, vigtaði það og vigtaði síðan allan strangann til að meta hversu mikið var eftir. Ég skráði niður og fann mikið til mín.

Dagatöl fyrirtækisins voru send árlega víða um land. Við frændsystkinin fengum að undirbúa það. Fyrst þurfti að festa blokkina með dögunuum 365 á spjaldið þar sem m.a. var í mörg ár falleg mynd af Bolungarvík. Þá var að pakka dagatalinu í stóran brúnan bréfpoka, hefta fyrir og að lokum skrifa utan á, samkvæmt löngum listanum Okkur fannst skemmtilegt að afi vildi ávallt sjálfur skrifa utan á sendingarnar sem fóru í Ísafjarðardjúp, þar þekkti hann fólkið, bæina og viðkomandi hrepp. Þegar háir staflar voru komnir var öllu pakkað og pósturinn sá um að allir fengju dagatal áður en nýtt ár rann upp.

Kæru kirkjugestir.

Bernsukuárin í Bolungarvík eru endalaus uppspretta góðra minninga.

Þar kemur margt til. Ekki síst hin sterku fjölskyldubönd og sú ríka öryggiskennd sem umlykur þegar maður þekkir alla í kringum sig hvert sem maður fer.

Baráttan við nátturuöflin hefur kennt fólki þakklæti og auðmýkt. Milli þessara fallegustu fjalla býr einstakt og hlýtt fólk.

Mig langar að í lokin að vitna í orð Vigdísar Finnbogadóttur f.v. forseta

„Að vera Íslendingur er að minnast þess sífellt að við búum ekki hér á harðbalanum fyrir tilviljun, að okkur hefur tekist að virkja til vináttu land sem um langan aldur var íbúum þess andsnúið“(4) Tilvitnun lýkur.

Það hefur Bolvíkingum tekist, og við vitum að áræði þeirra og dugnaður en ekki síst samheldni, einlægur vilji, stolt og væntumþykja munu áfram styrkja þennan stað.

Takk fyrir.

 

Ester Jónatansdóttir.

DEILA