Veiðigjöldin lækka um 4 milljarða króna

Veiðigjaldið í sjávarútvegi mun lækka úr 11 milljörðum króna í 7 milljarða króna á ársgrundvelli samkvæmt því sem kemur fram í frumvarpi ríkisstjórnarinnar um veiðigjald. Mælt er fyrir um ákveðna reiknireglu í frumvarpinu til þess að ákvarða veiðgjaldið, en fyrir árið 2019 er henni ekki beitt heldur er fjárhæðin ákveðin í frumvarpinu sjálfu.  Veiðigjald í þorski mun lækka úr 21,69 kr/kg, sem það er nú, í 13,80 kr/kg á næsta ári. Lækkunin er 36%.

Afsláttur verður áfram veittur af veiðigjaldi og nær hann til fyrstu 6 milljóna króna sem útgerðir greiðir. Er lagt til að afslátturinn hækki í 40% úr 20% af fyrstu 6 milljón kr. Nú er veittur 20% afsláttur af fyrstu 4,5 milljónum króna og 15% af næstu 4,5 milljónum króna. Getur afslátturinn mest orðið 2,4 milljónir króna. Landssamband smábátaeigenda áætlar að breytingin hækki afsláttinn úr 252 milljónum króna upp í 429 milljónir króna. Þar sem saman fer hækkun afsláttarins og lækkun veiðigjaldsins mun afslátturinn hækka úr 2% af veiðigjaldstekjunum upp í um 6%.

Stjórnarandstaðan lagði fram tvö nefndarálit. Samfylking, Píratar og Viðreisn standa saman að öðru álitinu og lögðust gegn lækkuninni. Töldu þau frumvarpið illa unnið og ógegnsætt þar sem tölulegar forsendur væru óljósar. Eins væri aukin hætta á að hlutur sjómanna myndi lækka þar sem útgerða og vinnsla er víða á sömu hendi. Vilja þau sem standa að nefndarálitinu fara markaðsleið með útboði aflaheimilda og leggja því til að 20% af veiðigjaldinu verði reiknað út frá markaðsverði á aflamarki og 80% veiðigjaldsins verði ákvarða samkvæmt tillögu stjórnarmeirihlutans. Miðflokkurinn skilaði séráliti og telur veiðigjaldið vera of hátt og telur að verði frumvarpið samþykkt muni það tryggja ofurskattlagningu í sessi.

DEILA