Þekking úrskurðarnefndarinnar

Nanna Magnadóttir, formaður úrskurðarnefndarinnar.

Þriðja spurningin sem send var til formanns úrskurðarnefndar um umhverfis- og auðlindamál laut að þekkingu nefndarmanna að kæruefninu. Svör formannsins Nönnu Magnadóttur eru að lögfræðiþekking innan nefndarinnar sé mikil og ennfremur sé í nefndinni umhverfis- og auðlindafræðingur.

Hvaða þekkingu búa nefndarmenn sem kváðu upp úrskurðinn yfir um fiskeldi í sjó og aðra eldismöguleika sem nefndin bendir á ?

 

Svar: Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar var á því reist að einungis einn valkostur fyrirhugaðrar framkvæmdar hefði verið lagður fram og þar með hefði ekki verið „fullnægt þeim áskilnaði 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000, eða þeirra annarra laga- og reglugerðarákvæða sem áður hafa verið rakin, að gerð væri grein fyrir helstu möguleikum sem til greina kæmu og umhverfisáhrifum þeirra og þeir séu bornir saman.“ Kemur framangreint fram í niðurstöðu úrskurðarins. Þar segir einnig: „Þar sem ekki hefur verið sýnt fram á í mati á umhverfisáhrifum að enginn annar mögulegur framkvæmdarkostur hafi getað komið til greina í skilningi 2. málsl. 1. mgr. 8. gr. og 4. málsl. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 106/2000 verður að telja það verulegan ágalla á matinu að engum öðrum kosti var lýst að öðru leyti en vísað væri til þess að núllkostur hefði engin áhrif í för með sér.“ Loks segir í niðurstöðukaflanum: „Að teknu tilliti til nefnds ágalla og markmiða þeirra sem að er stefnt með mati á umhverfisáhrifum gat matsskýrsla framkvæmdaraðila og álit Skipulagsstofnunar á henni ekki verið lögmætur grundvöllur fyrir ákvörðun um veitingu leyfa til framkvæmda…“

 

Úrskurðarnefndin benti þannig ekki á aðra eldismöguleika í niðurstöðu sinni. Hins vegar var í niðurstöðu nefndarinnar vitnað til þess hvaða aðra kosti kærendur hefðu bent á og hverju leyfishafar hefðu borið við hvað þá kosti varðaði, án þess að dregin væri sérstök ályktun af hálfu úrskurðarnefndarinnar um þá kosti.

 

Hvað varðar fyrri hluta spurningarinnar þá er vísað til 2. gr. laga nr. 130/2011 þar sem fram kemur að formaður og varaformaður úrskurðarnefndarinnar séu skipaðir af ráðherra skuli uppfylla starfsgengisskilyrði héraðsdómara. Þau skilyrði koma fram í 29. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla og vísast til efni þeirra. Í nefndri 2. gr. laga nr. 130/2011 kemur einnig fram að aðrir nefndarmenn skuli tilnefndir af Hæstarétti. Þeir skuli vera með háskólapróf og sérþekkingu á nánar tilgreindum sviðum. Einn á sviði skipulagsmála, einn á sviði byggingarmála, einn á sviði umhverfismála, einn á sviði jarðvísinda, orkumála og jarðrænna auðlinda og einn á sviði vistfræði og lífríkis þurrlendis, ferskvatns og sjávar.  Tveir skuli hafa embættispróf í lögfræði eða annað háskólapróf sem verður metið jafngilt. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna skulu fimm menn sitja í úrskurðarnefndinni ef mál er viðamikið eða fordæmisgefandi og ákvarðar formaður hvernig nefndin er skipuð hverju sinni.

 

Í þetta sinn var nefndin mönnuð formanni og varaformanni og þeim tveimur lögfræðimenntuðu nefndarmönnum sem í nefndina eru skipuð. Voru fjórir nefndarmanna því lögfróðir aðilar, enda felur endurskoðun nefndarinnar í sér athugun á lögmæti þeirra ákvarðana sem kærðar eru, svo sem áður greinir. Í upphafi úrskurðanna kemur fram að lögfræðingar þeir sem nefndina skipuðu gegna ábyrgðarstöðum innan stjórnsýslu ríkisins, dómskerfisins og fræðimannasamfélagsins. Fimmti nefndarmaðurinn er umhverfis- og auðlindafræðingur sem hefur háskólagráðu í líffræði, framhaldsgráðu í fiskifræði (e. Fisheries Science) og doktorspróf í auðlindastjórnun (e. Natural Resource Management). Hann hefur á starfsferli sínum innan, sem utan lands, stundað rannsóknir, verið til ráðgjafar, sinnt kennslu og haldið fyrirlestra vegna málefna tengdra hafinu, sjávarútvegi, fiskveiðum, fiskveiðistjórnun, auðlindastjórnun auk þess sem hann hefur áður haft umsjón með norrænu samstarfi um fiskveiðar, fiskveiðistjórnun og fiskeldi, m.a. um nýsköpun í fiskeldi, s.s. lokað landeldi (RAS) og úthafseldi.

DEILA