SI : Atvinnustefna fyrir Ísland

Mynd 1 úr skýrslu samtaka iðnaðarins sýnir framtíðarsýnina.

Í gær var kynnt skýrsla samtaka iðnaðarins  sem ber heitið Atvinnustefna fyrir Ísland. Tillögunum er ætlað að auka verðmætasköpun og bæta þannig lífsgæði landsmanna.

Í formála skýrslunnar segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri samtakanna :

„Í þessari skýrslu er horft til framtíðar og gerðar tillögur að umbótum sem ráðast mætti í á næstu tveimur árum til þess að auka verðmætasköpun sem er grundvöllur að velferð og bættum lífsgæðum landsmanna. Með atvinnustefnu er ekki einungis lagður grunnur að uppbyggingu til að styðja við efnahagslega velsæld heldur getur atvinnustefna verið rauði þráðurinn í stefnumótun hins opinbera. Þannig væri unnið að samræmi í ólíkum málaflokkum svo að fjármunir nýtist á sem skilvirkastan hátt og dregið úr sóun.“

Í skýrslunni er horft til ársins 2050. Þá er gert ráð fyrir að íbúafjöldinn verði 443 þúsund manns og fjölgunin nemur  95 þúsund manns. Útflutningsverðmæti meira en tvöfaldast og aukast um 1.500 milljarða króna. Landsframleiðslan vex um nærri 2.800 milljarða króna og ríflega tvöfaldast. Hins vegar verða mun færri hendur til að framleiða verðmætin því þá verða aðeins 2,7 á vinnifærum aldri ( 15 -64 ára) á móti hverju 65 ára og eldri, en þetta hlutfall er nú 4,7.

Þau fjögur málefni sem skipta mestu er varðar breytileika í framleiðni milli landa, segir í skýrslunni,  eru menntun, innviðir, nýsköpun og starfsumhverfi. Með umbótum í þessum fjórum málaflokkum eflist samkeppnishæfni landsins, verðmætasköpun eykst og farsæld þjóðarinnar vex samhliða því.  Framtíðarsýn er sett fram fyrir hagkerfið og svo um hvert og eitt hinna fjögurra áherslumála. Út frá því eru gerðar tillögur að umbótum sem styðja við framtíðarsýnina og auka samkeppnis hæfni.

 

DEILA