SFS : Alþingi hækkar veiðigjaldið

Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri SFS. Mynd: RÚV.

Í nýjasta fréttabréfi samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, ritar Heiðrún Lind Marteinsdóttir, framkvæmdastjóri samtakanna um veiðigjaldið sem Alþingi hefur til meðferðar. Segir Heiðrún Lind að frumvarpið hækki veiðigjaldið frá því sem nú er. Segir hún fordæmalaust föndur viðhaft í frumvarpinu.

Tvennt gerir hún athugasemd við. Það fyrra er að veiðigjaldið er ekki lengur breytilegur kostnaður eins og verið hefur. Til þessa hefur álagt veiðigjald  verið dregið frá tekjum og lækkað gjaldstofninn. Það leiðir til þess að veiðigjaldið verður framvegis lagt á tekjur umfram breytilegan kostnað án veiðigjaldsins. Gjaldstofninn hækkar með með og þá líka álagt veiðigjald.  Heiðrún Lind Marteinsdóttir gegnrýnir þetta nokkuð harðlega:

„Engar skýringar er því miður að finna á þessari grundvallarbreytingu frá fyrri framkvæmd og fordæmalausu skilgreiningu á breytilegum kostnaði. Þegar ráðherra hefur verið inntur svara hefur jafnframt orðið fátt um svör, enda er enga rökrétta skýringu á þessu að finna. Þessum mikilvæga kostnaðarlið hefur einfaldlega verið kippt út til þess að blása upp reiknistofninn – og hækka þannig álagt veiðigjald. Svona vinnubrögð eru óboðleg við smíði vandaðrar löggjafar og sanngjarnrar gjaldtöku.“

Seinna atriðið sem framkvæmdastjóri SFS gerir athugasemd við er að aflaverðmæti uppsjávarfisks er hækkað um 10% áður en veiðigjaldið er lagt á. Um það ritar framkvæmdastjórinn:

„uppsjávarútgerðir senda vikulega ítarlegar upplýsingar um verð til Verðlagsstofu skiptaverðs og sú ríkisstofnun rýnir þær og gætir að því að verð einstakra útgerða víki ekki í verulegum atriðum frá því sem algengast er. Verðlagsstofa kemur þessum upplýsingum síðan áleiðis til úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna. Ekkert er því á huldu í þessum efnum sem réttlætt getur þá aðgerð sem frumvarpið boðar, þ.e. að hækka handvirkt aflaverðmæti uppsjávarútgerða um 10%.“

DEILA